*

Hitt og þetta 24. janúar 2013

10 óviðeigandi spurningar handa manneskju í fæðingarorlofi

Að eignast barn er ekkert grín. Og að umgangast manneskju sem er nýbúin að eignast barn er enn minna grín.

Lára Björg Björnsdóttir

Viðskiptablaðið leit inn í huga nýbakaðra mæðra og komst að því hvaða spurningar ber allskostar að forðast í samtölum við þær.

1. Geturðu ekki lagt þig á meðan barnið sefur? 

Jú jú, minnsta málið að leggjast bara í hauginn af óhreinu taui, uppvaski og ósvöruðum símtölum sem bíða og bara sofna. Getur þú ekki líka bara lagt þig upp á fundarborðið í vinnunni þegar yfirmaðurinn skreppur á klósettið? 

2. Ertu heima? 

Já, ég er alltaf heima. Og finnst fátt skemmtilegra en að fá símtal um að þú sért að koma í heimsókn því þá fæ ég að hlaupa um alla íbúð með ajaxið, strauja gardínurnar, hella upp á kaffi, fara í ríkið og kippa einni vodkaflösku með, baka ostaslaufur, allt með krakkann á handleggnum. Síðan tekur við heimsókn þar sem ég reyni að halda athyglinni á meðan þú situr og talar um eitthvað sem ég heyri ekki því ég er svo þreytt. 

3. Hvað ertu að gera í fæðingarorlofinu? 

Ég sit úti á svölum og sniffa lím á milli þess sem ég pósta myndum af mér á facebook þegar ég var mjó og full. Og með betra hár.

4. Er komin svefnrútína? 

Já og rútínan er svona: Ég sef ekki neitt lengur. En það er allt í lagi því ég er svo náttúrulega falleg. 

5. Hvernig gengur brjóstagjöfin? 

Ertu að biðja mig um að fara úr að ofan? Nei í alvöru. Ég get það alveg. Viltu sjá þetta allt? 

6. Ertu byrjuð að hreyfa þig eitthvað?

Já auðvitað. Þeir byrja að taka við umsóknum fyrir ungfrú Ísland eftir nokkrar vikur svo ég er aðeins byrjuð að skoða mataræðið. Tek út brauð og svona. 

7. Kaupir þú ekki örugglega lífrænan barnamat? 

Ó, er þá ekki í lagi að láta barnið borða á Austurlandahraðlestinni og Pizza King?

8. Kemstu í barnaafmæli um helgina?

Já já, verða ekki örugglega mjög mörg börn og öll yngri en 4 ára og íbúðin ekki stærri en 70 fermetrar?

9. Hvað verður þú lengi í fæðingarorlofi?

Þangað til þeir reka mig.

10. Er þetta ekki bara æðislegt? 

Jú. 

Stikkorð: Fæðingarorlof