*

Hitt og þetta 5. maí 2013

10 ráð til að lifa af barnaafmæli

Það getur verið margt í mörgu og víða pottur í molum þegar halda skal barnaafmæli.

Lára Björg Björnsdóttir

Mig langar til að hjálpa ykkur. Svo, hér koma nokkur mikilvæg ráð frá mér til ykkar. Það var svo lítið. 

10 ráð til að lifa af barnaafmæli: fyrir gesti:

1. Ekki mæta. 

2. Ef afmælið er í blokk, taktu með þér fallhlíf. Ef það er á jarðhæð, taktu með þér jarðbor. 

3. Smyglaðu inn púrtvíni í filmuboxum. Seldu þau í afmælinu svo lítið beri á og koddu út í plús. 

4. Finndu herbergi, farðu þangað inn, læstu dyrunum og brjóttu lykilinn í skránni. Lásasmiðir eru amk tvær klukkustundir að bregðast við útkalli um helgar svo þú ert í góðum málum sé afmælið um helgi. 

5. Mættu í flotgalla með hjálm og hlífðargleraugu og segðu fólki að þú sért tilraunadýr hjá Actavis í prufu á nýju lyfi og að allt áreiti valdi uppköstum og niðurgangi. 

6. Klæddu þig upp eins og grýla eða leppalúði (hér er lykilatriði að afmælið sé nálægt jólum) og dragðu á eftir þér poka fullan af snákum. 

7. Rífðu í brunaboða ef afmælið er haldið í vönduðu fjölbýli. Ef afmælið er í einbýlishúsi berðu þá kveikjara upp við reykskynjara. Þegar slökkviliðið mætir á vettvang og hugsanlega lögreglan mun gestgjafinn algjörlega skilja þig þegar þú þakkar pent fyrir þig og kveður. 

8. Farðu út á svalir og málaði málverk sem þú kallar „sjónrænt tilbrigði við hnetusmjör."

9. Mættu með powerpoint sýningu í farteskinu þar sem þú býðst til að fara yfir úrslit kosninganna í nýstárlegu samhengi þar sem þú litagreinir hvern einasta frambjóðanda hjá litlu flokkunum sem náðu ekki manni á þing. 

10. Vertu búinn að æfa einsöng þar sem þú syngur öll jólalög sem komu út á Íslandi frá 1950 til 1980 með nýjum texta um uppáhaldsmatinn þinn.  

10 ráð til að lifa af barnaafmæli: fyrir gestgjafa: 

1. Ekki halda upp á afmælið.  

2. Bjóddu einungis upp á kökur sem innihalda púrtvín, sérrí eða annað sprútt. 

3. Bjóddu allri ættinni og vinahópnum til að virka hress og brjálæðislega til í þetta en láttu síðan boð út ganga að lilli litli (afmælisbarnið) sé með lús. 

4. Færðu allar klukkur og síma í afmælinu fram um tvær klukkustundir rétt eftir að gestirnir mæta. Þegar tuttugu og fimm mínútur er liðnar af afmælinu, þakkar þú fólki fyrir komuna og skrúfar fyrir kaffiveitingarnar. 

5. Ekki bjóða upp á neinn mat sem fólki gæti þótt góður. Bakaðu afleitar kökur og hafðu kaffið þunnt. Fólk situr lengur yfir góðgæti en kökum þar sem 750 grömm af salti fóru í hræruna í stað hveitis. 

6. Segðu börnunum skemmtisögur af náttúrufyrirbærinu Sinkholes og hvað þær eru algengar á parketgólfum á Íslandi ef kökumylsna snertir gólfið. Sýndu myndir af Sinkholes víðsvegar í heiminum ef börnin vita ekki hvað Sinkholes eru. 

7. Settu plastfilmu yfir allt sem þér þykir vænt um á heimilinu og teipaðu börn sem láta ófriðlega við stóla. 

8. Spurðu hvert einasta barn hvað foreldrar þess kusu og merktu barnið með viðkomandi flokki, andlitsmálning x-D á enni sjálfstæðisbarna, x-S á samfylkingarbörn og svo framvegis. 

9. Vertu búin að æfa listdans sem heitir „Það sem ég hefði sungið ef ég hefði einhvern tímann verið beðin(n) um að syngja í júróvisíon.” Tjáðu þennan texta með líkama þínum úti á gólfi og láttu börnin dansa með. 

10. Fæðingarsagan er alltaf góð. Náðu í fæðingarskýrsluna, skannaðu hana inn á tölvu og varpaðu henni upp á vegg á meðan þú segir fæðingarsöguna í löngu útgáfunni, það er að segja frá og með einum sentimetra í útvíkkun útgáfunni. Ef þú átt ljósmyndir er það líka alveg pæling. 

Stikkorð: Leiðindi  • Harmur  • Barnaafmæli  • Hjálp