*

Bílar 14. október 2012

100 geggjuðustu bílarnir

Ný bílabók lítur dagsins ljós. Ákveðið var að hafa bókina skemmtilega og aðgengilega fyrir alla aldurshópa og kyn.

Bókin 100 geggjuðustu bílarnir kemur út hjá Bjarti/Veröld nú á næstunni. Finnur Thorlacius, bílablaðamaður Morgunblaðsins, þýddi verkið sem er upphaflega gefið út af Top Gear í Bretlandi.

,,Við heilluðumst af bókinni eftir að hafa lesið hana á ensku því hún hefur mikið skemmtanagildi. Geggjaður bíll getur haft svo margar merkingar. Í bókinni er allt frá misheppnuðum bílum upp í dýrustu og flottustu bílana. Þarna eru bílar sem brjóta hljóðmúrinn, keyra neðansjávar, ljótustu bílar heims og þeir fallegustu,“ segir Finnur. Hann segir að það hafi verið mjög gaman að þýða bókina. ,,Þetta var mikil skemmtun og raunar alveg unaður fyrir mig sem bílaáhugamann að fjalla um hvern bíl. Þeir eru margir og ólíkir en allir áhugaverðir og með sína sérstöðu, hvort sem um er að ræða Trabant eða Bugatti.“

Finnur segir að ákveðið hafi verið að hafa bókina skemmtilega og aðgengilega fyrir alla aldurshópa og bæði kyn. ,,Þetta er eiginlega framlenging af því að horfa á Top Gear í sjónvarpinu. Bílar höfða til flestra og íslenskar fjölskyldur eyða líklega meira í bílakaup en í húsnæði,“ segir Finnur en hann er umsjónarmaður bílavefjar mbl.is og skrifar auk þess í bílablað Morgunblaðsins.