*

Veiði 15. júní 2014

100% uppselt er í Flekku

Sigurður Héðinn er kominn með Flekkudalsá á leigu. Hann segir fáa útlendinga veiða í ánni.

Sigurður Héðinn Harðarson er einn af þekktari veiðimönnum og fluguhnýturum landsins. Í veiðiheiminum er hann oftast nefndur eftir sinni frægustu flugu og kallaður Siggi Haugur.

Sigurður er framkvæmdastjóri fyrirtækisins Fiskiflugur ehf., sem hefur undanfarin ár selt veiðileyfi í ýmsar lax- og silungaár á Íslandi og þá einkum til erlendra veiðimanna. Nokkur breyting hefur nú orðið á rekstri Fiskiflugna því síðasta haust samdi félagið við Veiðifélag Fellsstrandar um leigu á Flekkudalsá en þetta er í fyrsta skiptið sem fyrirtækið er með á á leigu. Auk Flekkudalsár tekur samningurinn til Tunguár og Kjarlaksstaðaár á Fellsströnd í Dalasýslu.

„Þetta er bara 100 prósent – það er uppselt,“ segir Sigurður Héðinn. „Þetta eru meira eða minna nýir kúnnar en þó eru einhverjir sem hafa verið þarna í mörg ár. Ólíkt mörgum öðrum ám þá eru þetta nánast allt Íslendingar sem veiða í Flekku, það koma afar fáir útlendingar,“ segir hann.