*

Bílar 14. maí 2019

10.000 ID. seldust á sólarhring

Forsala á Volkswagen ID. 3 hófst í síðustu viku þegar opnað var fyrir forsölu á sama tíma í 29 löndum í Evrópu.

Forsala á Volkswagen ID. 3, fyrstu rafbílunum sem byggðir eru á MEB-grunni, hófst í síðustu viku þegar opnað var fyrir forsölu á sama tíma í 29 löndum í Evrópu.

Forpöntunarsíða Volkswagen lá niðri í um eina og hálfa klukkustund í gær og fyrstu tölur frá öllum mörkuðum sem hófu forsölu í gær gefa til kynna að mikill áhugi sé á bílnum. Hjá Heklu á Laugavegi var sýnt beint frá viðburðinum sem haldinn var í Berlín og boðið til hádegisverðar í Volkswagen salnum þar sem viðskiptavinir ásamt starfsfólki Heklu fögnuðu þessum tímamótum.

Fyrstu bílarnir sem seldir verða eru ID. 3 1st Edition. Um er að ræða sérstaka viðhafnarútgáfu af þessum nýju rafbílum með 58 kWh rafhlöðu sem er áætluð með 420 km drægni samkvæmt nýjum stöðlum WLTP. Á langferðalagi dugar 30 mínútna kaffihlé til að hlaða bílinn með allt að 260 km drægni. Innanrými ID. 3 er svipað Passat að stærð en að utan er svipar honum til Golf.

Hinir alrafmögnuðu ID. bílar eru þeir fyrstu frá Volkswagen sem hannaðir eru frá upphafi sem rafbílar en eins og þekkt er hafa raf- og tengiltvinnbílar Volkswagen allir verið byggðir á forverum sínum; Golf, Up! og Passat. Þessi nýbreytni í hönnun ID. 3 eykur alla rýmisnýtni töluvert og býður upp á framsæknari tækninýjungar en áður.

,,ID. 3 er ný lína rafbíla frá Volkswagen og er ID. 3 1st Edition sá fyrsti hennar sem fer í framleiðslu. Við erum í skýjunum með móttökurnar enda forsölur á borð við þessa nokkuð fátíðar á Íslandi. 29 lönd hófu forsölu á sama tíma og síðastliðnum sólarhring hafa 10.000 bílar verið pantaðir í forsölu af þeim 30.000 sem í boði eru. Það verða að teljast nokkuð góðar viðtökur. Fleiri bílar úr röðum ID. 3 rafbílalínu Volkswagen munu fylgja í kjölfarið og síðar á þessu ári gerum við ráð fyrir að hefja sölu á ID. Crozz sem er fyrsti alrafmagnaði jeppinn okkar sem veriður á stærð við Tiguan. Þá mun sala á ID. Buzz hefjast á næsta ári og svo er komið að ID. Vizzion sem verður til sölu árið 2023,“ segir Jóhann Ingi Magnússon vörumerkjastjóri Volkswagen.

Í september verður ID. 3 1st Edition heimsfrumsýndur í Frankfurt en þar verður endanlegt útlit kynnt ásamt verði en búið er að gefa út að ID. 3 1st Edition muni kosta undir 40.000 evrum í Þýskalandi.