*

Bílar 20. ágúst 2012

103 ára sögu Maybach-lúxusbíla er lokið

Þýski bílaframleiðandinn Daimler ætlar að fylla upp í tómarúmið sem Maybach skilur eftir sig með Mercedes Benz-ofurlúxusbílum.

Róbert Róbertsson

Maybach lúxusbílamerkið í eigu Daimler hefur verið lagt niður og hefur framleiðslu á þessum ofurlúxusbílum verið hætt. Þar með lýkur 103 ára sögu bílanna sem hófst árið 1909 þegar Wilhelm Maybach stofnaði fyrirtækið.

Fyrsta Maybach bifreiðin leit dagsins ljós árið 1918 og hét W3. Saga Maybach er þó langt frá því að vera samfelld því að starfsemin stöðvaðist í stríðslok árið 1945 og hófst ekki á ný fyrr en árið 1997 þegar Daimler hóf framleiðslu á rándýrum ofurlúxusbílum.

Rekstur fyrirtækisins hefur alla tíð verið þrautaganga og skilaði tapi síðustu 15 árin. Kaupendahópurinn, sem aðallega stóða af vellauðugum Bandaríkjamönnum sem sóttust eftir evrópskum ofurlúxusbílum, var einfaldlega ekki nógu stór og framleiðslan því hvergi nærri nóg til að rísa undir þróun og nýsköpun.

Mercedes-Benz keypti verksmiðju Maybach og vörumerkið árið 1960 en framleiðslan hófst þó ekki aftur fyrr en 1997 eins og áður segir. Ætlunin var þá að framleiða bíla til höfuðs Rolls Royce og Bentley. Fram á sjónarsviðið komu Maybach 57 og síðar Maybach 62. Í raun var þetta einn og sami bíllinn tæknilega séð, nema hvað annar var 5,7 metra langur en hinn 6,2 metrar.

Daimler sefnir að því að fylla fljótt upp í það tómarúm sem Maybach skilur eftir sig með nýrri kynslóð Mercedes-Benz ofurlúxusbíla úr S-línunni.

Stikkorð: Mercedes Benz  • Daimler  • Maybach