*

Sport & peningar 25. febrúar 2020

12% tekjusamdráttur hjá Manchester United

Tekjusamdrátturinn er aðallega rakinn til brotthvarfs félagsins úr Meistaradeild Evrópu.

Tekjur enska knattspyrnuliðsins Manchester United drógust saman um nærri 12% á seinni sex mánuðum ársins 2019. Er tekjusamdrátturinn aðallega rakinn til brotthvarfs félagsins úr Meistaradeild Evrópu. BBC greinir frá.

Sjónvarpstekjur drógust saman um ríflega 33% á tímabilinu, en á sama tíma jukust auglýsingatekjur um 6,5% auk þess sem tekjur tengdar leikdögum héldust nánast þær sömu. Félagið reiknar með að tekjur ársins 2020 verði á bilinu 560-580 milljónir punda.

Ed Woodward, framkvæmdastjóri Manchester United, segir að ágætis gangur sé í enduruppbyggingu leikmannahóps félagsins. Þá kveðst hann bjartsýnn á að þeir leikmenn sem undanfarið hafi verið keyptir, auk leikmanna sem eru að koma upp úr yngri flokka starfi félagsins, geti orðið grunnurinn að góðum árangri liðsins til langs tíma. 

Stikkorð: Manchester United  • tekjur