*

Hitt og þetta 16. október 2013

14 ósiðir sem gætu kostað þig starfið

Óstundvísi, verkfælni og neikvæðni eru á meðal ósiða sem eru ekki sigurstranglegir á vinnustaðnum.

Flestir hafa gerst sekir um að haga sér eins og bavíani og vera með dólgshátt hér og þar í gegnum tíðina. En ef slík hegðun á sér stað á vinnutíma og er ítrekuð þá gæti verið hætta á ferðum. 

Á vefsíðunni Forbes.com er grein sem fjallar um fjórtán ósiði sem gætu kostað fólk starfið. Í greininni kemur líka fram að þeir sem gerast ítrekað sekir um ósiðlega hegðun í vinnunni átta sig sjaldnast á því. Þangað til þeir eru kannski reknir. Því miður.

Lygar: Hér er átt við allar mögulegar lygar og svik. Allt frá því að ljúga til um vinnutíma eða menntun og upp í fjársvik. Ekki vandað.  

Að fresta: Starfsmaður sem ýtir verkefnum á undan sér og forðast þau þangað til á síðustu stundu lendir í veseni á endanum. 

Neikvæðni: Neikvæðni smitar út frá sér og hefur áhrif á alla. 

Óstundvísi: Segir sig sjálft. 

Samskiptasóðar: Að svara tölvupóstum seint og illa er aldrei gott. 

Facebookfíklar: Það hefur áhrif á vinnuafköstin að hanga á samskiptamiðlum allan daginn. Og það fer ekki framhjá yfirmanninum þegar allar setningar byrja á: „Ég var að lesa eitt á Facebook..."

Líkamstjáning: Ranghvolfandi augu, ekkert augnsamband og aumt handaband er ekki gott.  

Að falla í hópinn: Ef fólk er alltaf utangátta og gerir allt öfugt við hina á vinnustaðnum getur skapast spenna og ágreiningur. Hér er verið að tala um hluti eins og að koma með illa lyktandi mat í opið vinnurými, spila tónlist of hátt, segja óviðeigandi brandara eða fara ekki í bað. 

Málfar: Gott er að sletta ekki eða nota gróft tungumál í kringum vinnufélagana og þá sérstaklega yfirmanninn.

Einfarinn: Gott er að sýna sjálfstæði en ef fólk forðast að taka þátt í verkefnum með samstarfsfólki og hugsa um liðsheildina geta skapast vandamál. 

Að missa stjórn á skapi sínu: Það er aldrei vænlegt til árangurs að missa stjórn á skapi sínu eða koma með vandamál að heiman í vinnuna. Bara aldrei. 

Blaðurskjóðan: Ekki tefja fólk í kringum þig með blaðri og slúðri um hluti sem koma vinnunni ekkert við. Gott er að hafa í huga að vinnustaðurinn er einmitt það, vinnustaður en ekki kaffiboð. 

Að tala fyrst og hugsa svo: Ef fólk lendir ítrekað í því að segja óviðeigandi hluti í samtölum eða tölvupóstum þá endar það á einn veg: Illa. 

Dónaskapur: Gott er að muna að þakka fyrir sig og biðja fólk fallega um hluti. Hrottaskapur í samskiptum er eitthvað sem er ekki liðið til lengdar á vinnustöðum. 

Stikkorð: Vesen  • Rugl  • Vinnustaðir