*

Sport & peningar 6. júní 2014

1400 milljarða fjárfesting vegna HM

FIFA mokgræðir á HM en Brasilíumenn taka ábyrgð á kostnaði.

Áætlað er að fjárfestingar Brasilíumanna vegna HM í knattspyrnu, sem hefst í næstu viku, nemi 1400 milljörðum króna. Það er ríflega þreföld sú upphæð sem Suður-Afríkumenn vörðu fyrir fjórum árum. Þetta kemur fram í umfjöllun VÍB um fjármál vegna HM.

Þar kemur fram að tekjur af heimsmeistaramótum hafa aukist til muna á undanförnum árum og kostnaðurinn sömuleiðis. Þegar litið er á skiptingu tekna og útgjalda kemur þó í ljós að þeim er skipt með mjög ójöfnum hætti milli Alþjóða knattspyrnusambandsins FIFA og þeirrar þjóðar sem býður heim. Tekjurnar fara að nær öllu leiti til skælbrosandi Sepp Blatter og félaga í FIFA á meðan Brasilíumenn hafa sjálfir þurft að bera nær allan kostnað af nauðsynlegum framkvæmdum í tengslum við leikana. Sama var uppi á teningnum í Suður-Afríku fyrir fjórum árum og hagnaðist FIFA þar gríðarlega.

Í umfjöllun VÍB kemur fram að Brasilía mun ekki hagnast á hýsingu heimsmeistaramótsins nema fjárfestingarnar skili hagstæðum langtímaáhrifum og slíkt sé erfitt að meta nema löngu síðar. Þetta eigi einnig við um Ólympíuleika og því séu stórmót svo umdeild þar sem þau eru haldin. Moody‘s spáir 0,4% aukningu landsframleiðslu Brasilíu til 10 ára vegna mótsins, en til lengri tíma er mikil óvissa. 

Stikkorð: HM í Brasilíu