*

Bílar 3. febrúar 2019

15 ára í rallkeppni

Þrátt fyrir að vera rétt nýorðin 16 ára er Erika Eva Arnarsdóttir aðstoðarökumaður í akstursíþróttum.

Róbert Róbertsson

Erika Eva Arnarsdóttir á ekki langt að sækja bíladelluna enda er fósturfaðir hennar, Daníel Sigurðarson, með þekktustu og sigursælustu rallökumönnum landsins síðustu tvo áratugi. Þau feðgin höfnuðu í þriðja sæti í alþjóðarallinu á síðasta ári en þrátt fyrir að vinna flestar sérleiðir keppninnar töpuðu þau miklum tíma vegna sprunginna dekkja.

„Mótorsportið er gríðarlega skemmtilegt. Það er geggjuð tilfinning að sitja í aðstoðarökumannssætinu í keppni með Danna undir stýri. Ég hef farið á akstursíþróttakeppnir síðan ég var lítil og fór þá oft í útilegur sem tengdust keppnunum. Ég hef því lengi haft áhuga á akstursíþróttum. Svo þegar Danni spurði mig hvort ég vildi keppa þá var ég auðvitað rosalega spennt og sagði strax já. Mamma gaf mér leyfi og þá var allt klárt,"  segir Erika en hún á greinilega framtíðina fyrir sér í akstursíþróttum. 

Dugleg að fara yfir nóturnar

Aðspurð hvort þetta sé ekki erfitt svarar hún: ,,Ég verð ekki bílhrædd þótt hraðinn sé mikill. Ég er bara mjög einbeitt og mér finnst þetta hafa gengið mjög vel hjá mér hingað til. Mér gengur vel að lesa leiðarnóturnar og segja Danna til. Svo verð ég að vera dugleg að fara yfir nóturnar og æfa mig. Ég hef gaman af því að keyra leiðirnar fyrirfram og gera leiðarnótur og  æfa mig," segir Erika.

Daníel er að sjálfsögðu stoltur af stelpunni: ,,Hún er alveg með þetta og raunar ótrúlega góð og ég tala nú ekki um miðað við aldur. Satt að segja var hún strax miklu betri en ég þorði að vona. Hún gerir leiðarnóturnar ótrúlega vel miðað við þetta litla reynslu. Hún skrifaði m.a. 37 blaðsíður af leiðarnótum fyrir eina sérleið í rallinu í fyrra og las þær í mig með glæsibrag. Þessi mikla undirbúningsvinna er lykillinn að árangri í rallinu. Henni gengur vel að lesa nóturnar þótt hraðinn sé mikill sem skiptir gríðarlegu máli fyrir ökumanninn. Hún hefur ekki slegið feilnótu," segir Daníel. 

Spennandi ár framundan

Daníel hefur keppt í rallý frá árinu 1998 og unnið flesta mögulega titla á Íslandi síðan þá og lengst af með systur sinni, Ástu Sigurðardóttur í aðstoðarökumannssætinu. ,,Við Ásta kepptum m.a. í Bretlandi í nokkur ár. Það var gríðarlega skemmtileg reynsla. Ásta tók sér barneignarfrí núna en við stefnum að því að keppa í Finnlandi í sumar í WRC heimsmeistarakeppninni í rallý. Síðan eru margar keppnir framundan hér heima sem við Erika ætlum að taka þátt í þannig að þetta verður spennandi ár," segir hann.

Keppa á 265 hestafla Skoda Fabia

Daníel og Erika keppa á glæsilegum Skoda Fabia S2000 rallbíl sem Daníel keypti af rallökumanninum þekkta Toni Gardemeister.

,,Toni keppti á þessum bíl í bæði Evrópukeppninni og heimsmeistarakeppninni. Bíllinn er smíðaður af Skoda Motorsport og er alveg fullbúinn rallýbíll. Hann kostaði 14 milljónir og er í toppstandi. Bíllinn er með tveggja lítra bensínvél sem skilar 265 hestöflum og 6 gíra gírkassa. Hljóðið í honum er líka alveg magnað enda snýst vélin í nærri 9.000 snúninga. Einn góður rallökumaður fylgdist með alþjóðarallinu í fyrra þar sem við Erika kepptum og hann sagði við mig eftir keppnina að hann hefði heyrt okkur keyra. Hann heyrði þetta ótrúlega flotta hljóð í bílnum án þess að sjá okkur. Mér fannst skemmtilegt að heyra hann segja þetta. Bíllinn er gríðarlega skemmtilegur í akstri, frábær fjöðrun og bremsur. Akstursánægjan er svo mikil," segir Daníel.

Nánar er fjallað um málið í Bílar, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér