*

Ferðalög & útivist 8. júlí 2013

15 eyjur úr alfaraleið

Fyrir fólk sem vill ekki lenda í örtröð ferðamanna og horfa á skemmtiatriði í hótelgarðinum þá eru hér nokkrar eyjur sem ættu að slá í gegn.

Ef Balí eða Jamaíka er of týpískt eitthvað þá eru hér eyjur sem aðeins þeir sem hafa mjög mikinn áhuga á eyjum vita að eru til yfirhöfuð.

Eyjurnar má finna á lista sem CNN tók saman. Þær eru allar afskekktar og eru því lausar við ágang túrista, vatnsrennibrautagarða og hótel sem bjóða upp á dansandi starfsfólk sem getur á hverri stundu brostið í Macarena-hópdans í morgunverðarhlaðborðinu. 

Eyjurnar eru fimmtán talsins. Þeir sem hafa komið til eyjanna segja engu líkara en að tíminn hafi gleymt þeim. 

1. Aitutaki, Cook Islands: Survivor Cook Islands var tekið upp á Aitutaki. Það ætti að segja allt sem segja þarf um eyjuna.

2. Utila, Honduras: Eyjan er bara 11 kílómetra löng en hægt er að stinga sér í sjóinn á 60 stöðum víðs vegar um eyjuna. Flestir íbúarnir búa í litlu þorpi á austanverðri eyjunni og reka þar litla veitingastaði og annað sem tengist ferðamannaiðnaðinum.

3. Marettimo, Ítalía: Marettimo er í klukkustundar fjarlægð frá Sikiley. Bílar eru bannaðir á eyjunni svo loftið er tært, húsin falleg og loftslagið hlýtt og gott allan ársins hring.

4. Tsarabanjina Island, Madagascar: Í norðvestur frá Madagascar má finna eyjuna Tsarabanjina.

 5. Mou Waho Island, Nýja Sjáland: Á Mou Waho er stórt stöðuvatn. Og eyjan er í því miðju. Eða öfugt. Og allt er þetta í reginhafi.

 6. Magdalen Islands, Quebec, Kanada: Hingað fara íbúar Montreal sem vilja komast aðeins „í burtu frá þessu öllu."

 7. Saba, Karabíska hafið: 1800 íbúar, fjögur þorp og lítil höfn er allt og sumt sem finna má á eldfjallaeyjunni Saba er. Enska er tungumálið og Bandaríkjadalur er gjaldmiðillinn.

8. Quilalea, Mósambík: Einu íbúar eyjunnar þar til 2011 voru skjaldbökur og eitthvað af öðrum villtum dýrum. En síðan voru byggðar níu villur og nú getur fólk fengið að búa í þessari óspilltu náttúru þar sem göngutúrar eru helsta dægradvölin.

9. XXXX Island, Ástralía: Eyjan er í eigu fyrirtækisins Lion sem á XXXX Gold Brand. Eyjan er paradís bjóráhugamannsins þar sem barinn á eyjunni sýnir stanslaust frá íþróttaviðburðum.

10. Guana Island, Bresku Jómfrúreyjarnar: Á eyjunni eru sjö strendur og eitt lítið hótel. Eigendurnir segja að eyjan sé eins og Karabísku eyjarnar voru áður en fólk uppgötvaði þær.

11. Sovalye Island, Tyrkland: Kastalarústirnar á eyjunni styðja sögusagnir um að sjóræningjar hafi haldið til á eyjunni á miðöldum.

12. Andros, Bahamas: Sagt er að Chickcharnee, sem er hálfur maður og hálfur fugl, gæti eyjunnar Andros. Einnig er sæskrímslið Lusca sjaldan langt undan. Annað markvert á eyjunni er elsta búð í heimi sem selur köfunarbúnað. Heimamenn dunda sér við að búa til körfur og annað sniðugt úr vatnsheldum stráum.

 13. Song Saa, Kambódía: Song Saa er í raun tvær eyjur, Koh Ouen og Koh Bong og eru þær tengdar saman með brú. Hægt er að komast á eyjarnar frá Sihanoukville höfninni og tekur ferðin aðeins 35 mínútur. 27 hús eru á eyjunum og ósnertir regnskógar.

14. Piel Island, Lake District Coast, Cumbria, Bretland: Á eyjunni eru rústir kastala og krá þar sem boðið er upp á stórkostlega fisk- og kjötrétti.

15. Navarino Island, Chile: Eyjan Navarino er tilvalin fyrir bakpokaferðalanga sem geta þvælst um firði, ósnert skóglendi, jökla og landslag sem hefur lítið breyst síðan Charles Darwin gekk um eyjuna 1832.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Stikkorð: Eyjar  • Náttúruparadís