*

Hitt og þetta 19. apríl 2006

18 holur í Hafnarfirði

Vinnuhópur sem skipaður var til að koma með tillögur varðandi nýjan 18 holu golfvöll í Hafnarfirði leggur til að völlurinn verði staðsettur á grænu svæði sunnan við Hvaleyrarvatn. Svæðið sem hér um ræðir er skipulagt sem útivistarsvæði og talið henta vel fyrir golfvöll. Þar hefur verið æfingasvæði fyrir knattspyrnu og eins er Flugmódelklúbburinn Þytur með aðstöðu þar. Talið er að það taki um fjögur til fimm ár að byggja nýjan golfvöll.

Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði, hitti forráðamenn Setbergs og Keilis í febrúar til að ræða golfvallarmálin og var þá settur á fót vinnuhópur sem nú hefur skilað tillögu. Fundurinn var haldinn í framhaldi að því að reiknað er með að svæðið sem er undir golfvelli  Setbergsmanna fari undir íbúðabyggð, jafnvel strax á næsta ári. Það er því brýnt að huga að frekari aðstöðu fyrir kylfinga innan bæjarmarka Hafnarfjarðar.

Land það sem er undir Setbergsvellinum er í uppnámi. Það kallar á nýja aðstöðu í Hafnarfirði enda mikill áhugi á golfi og ljóst að Hvaleyrarvöllur annar ekki eftirspurn. Gert hefur verið ráð fyrir því í skipulagi að byggja nýjan 18 holu völl, en sú vinna hefur reyndar ekki verið kláruð. Ekki er talið að nýr völlur á svæðinu sunnan Hvaleyrarvatns hafi áhrif á aðalskipulag bæjarins.

Byggt á Víkurfréttum