*

Bílar 18. október 2015

1.815 atvinnubílar skráðir á níu mánuðum

Alls voru skráðir 1.815 nýir atvinnubílar á fyrstu níu mánuðum ársins. Þetta er um helmings aukning frá síðasta ári.

Alls voru skráðir 1.815 nýir atvinnubílar á fyrstu níu mánuðum ársins. Þetta er um helmings aukning frá síðasta ári en þá voru nýskráningar atvinnubíla 974 allt árið. Salan á atvinnubílum hefur aukist umtalsvert en þess má geta að árið 2013 voru 690 nýir atvinnubílar skráðir hér á landi og það var samt fjölgun frá árunum að undan.

Enn eru þó eftir þrír mánuðir á þessu ári og nokkuð líklegt að ný- skráningar fari yfir 2.000 talsins á árinu sem er að líða. Sendibílar undir 5 tonnum eru langstærsti einstaki flokkurinn innan atvinnubíla en alls voru 1.334 nýir sendibílar í þeim stærðarflokki skráðir á fyrstu níu mánuðum ársins. Alls 1.406 nýir atvinnubílar undir 5 tonnum voru skráðir á fyrstu níu mánuðum ársins, 157 bílar sem eru 5 til 12 tonn að þyngd og 262 bílar yfir 12 tonn að þyngd samkvæmt upplýsingum frá Samgöngustofu.

Mikil endurnýjunarþörf

Mikil endurnýjunarþörf hefur verið í flokki atvinnubíla enda héldu fjölmörg fyrirtæki að sér höndum á árunum eftir hrun og létu vera að kaupa nýja bíla. Endurnýjun í flokki smærri atvinnubíla hófst þó fyrr en í flokki fólksbíla. Sala smærri atvinnubíla jókst þannig um 43% milli 2012 og 2013 og um 26% milli 2013 og 2014.

Nánar er fjallað um málið í fylgiriti Viðskiptablaðsins, Atvinnubílar. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Atvinnubílar