
Ofursportbíllinn Pininfarina Battista vakti mikla athygli á alþjóðlegu bílasýningunni í Genf á dögunum og skal engan undra enda glæsilegur gripur og með eindæmum kraftmikill.
Sportbíllinn er með samtals 1.874 hestöfl í vopnabúrinu og koma þau öll frá rafmótorum. Rafhlöðurnar eru frá Rimac og eru 120 kWh. Rafmótorar eru á öllum fjórum hjólum bílsins.
Pininfarina Battista fer úr kyrrstöðu í hundraðið á innan við 2 sekúndum og hámarkshraðinn er 350 km/klst. Togið er svakalega eða 1.694 Nm. Þessi bíll er að sögn framleiðands Automobili Pininfarina öflugasti bíll sem framleiddur hefur verið á Ítalíu.
Drægni þessa Pininfarina Battista sportbíls er 450 km. á rafhlöðunum. Aðeins verða framleidd 150 eintök að sögn ítalska framleiðandans en ekki er kominn verðmiði á gripinn en hann mun án efa kosta skildinginn.
Nafnið Battista kemur frá stofnanda bílaframleiðandans Battista Farina en hann stofnaði fyrirtækið árið 1930 sem hét upphaflega Carrozzeria Pinin Farina.