*

Bílar 3. október 2020

1,9 sekúndur í hundraðið

Hámarkshraði nýrrar Teslu, Model S Plaid er 322 km á klukkustund. Bíllinn er verðlagður á tæpar 20 milljónir króna.

Tesla frumsýndi á dögunum nýjan Model S Plaid sem er afar aflmikil útgáfa af flaggskipi Tesla fólksbíla.

Bíllinn er með nýrri rafhlöðu sem skilar alls ellefu hundruð hestöflum og er drægið alls 837 km að sögn Elon Musk, forstjóra Tesla. Hámarkshraðinn vekur líka athygli en bíllinn getur náð 322 km hraða sem er framúrskarandi fyrir rafbíl. Bíllinn er búinn þremur rafmótorum og aldrifi.

Samkvæmt upplýsingum frá Tesla er fyrirtækið byrjað að taka við pöntunum í bílinn en fyrstu bílar verða afhentir á næsta ári. Bíllinn er verðlagður á tæpar 20 milljónir króna.

Með þessu afli og drægi mun Tesla Model S Plaid hafa vinninginn yfir Porsche Taycan og það er eflaust bíllinn sem Musk hefur horft til í samkeppninni. Hefðbundna útgáfan og flaggskipið Tesla Model S kom fyrst á markað árið 2012 og hefur verið vinsæll.

Hönnunarteymi undir stjórn Franz von Holzhausen sá um að hanna Model S bílinn sem þykir vera vel heppnaður í útliti jafnt að innan sem utan.

Tesla er með flestar nýskráningar í september hér á landi. Alls voru nýskráðar 316 Tesla bifreiðar í nýliðnum september mánuði. Þar af voru 289 Model 3 bílar, 16 Model X og átta Model S.