*

Matur og vín 23. nóvember 2019

2 milljarða viskísafn slær heimsmet

Safnið inniheldur yfir 500 flöskur. Eigandinn hyggst halda áfram að bæta við það.

Júlíus Þór Halldórsson

Dýrasta viskísafn heims er yfir 2 milljarða króna virði og tilheyrir víetnamska athafnamanninum Viet Nguyen Dinh Tuan. Þetta staðfesti heimsmetabók Guinness um síðustu mánaðarmót.

Safnið samanstendur af einhverjum fágætustu og elstu skosku og japönsku viskíflöskum heimsins, en það telur alls 535 flöskur. Þeirra á meðal má finna nokkur Macallan Fine and Rare sett, meðal annars hið goðsagnakennda Fine and Rare frá 1926, en aðeins 40 flöskur af Macallan 1926 voru seldar. Viet á þrjár.

Hann á einnig eina af aðeins 12 flöskum af elsta Bowmore viskíi sem selt hefur verið, og eina af aðeins 24 flöskum af 1919 Springbank.

Viet hefur verið að safna í yfir tvo áratugi, og er hvergi nærri hættur. „Ég mun ekki selja eina einustu flösku,“ er haft eftir honum í umfjöllun BBC. Safnið geymir hann í sérsmíðaðri viskístofu á heimili sínu.