*

Ferðalög & útivist 12. ágúst 2013

20 algeng mistök á ferðalögum

Óþægilegir skór, hótel í úthverfum og stytta af búdda sem þú keyptir aldrei. Hér koma nokkur algeng mistök sem fólk gerir á ferðalögum.

Ferðalög eru oft eitt mesta tilhlökkunarefni fólks allt árið en þau geta hæglega breyst í martröð séu mistökin mörg og hugsunarleysið algjört.

CNN hefur ákveðið að aðstoða ferðalanga og benda þeim á algeng mistök sem ber að forðast þegar farið er af stað í ferðalag. Alla greinina má sjá hér en skoðum nokkur algeng mistök sem fólk gerir á ferðalögum.

Mörg þessara mistaka eru grátlega algeng og ótrúlega heimskuleg. Skoðum nokkur glapræði:

Of mikill farangur. Samkvæmt mjög vísindalegum rannsóknum kemur fólk að meðaltali heim með sex dress algjörlega ónotuð. Ekki pakka of miklu og burðast með fulla ferðatösku af djönki sem þú munt aldrei fara í. Notaðu frekar plássið í ferðatöskunni til að koma heim með djönk úr H&M.

Að hætta við kaup. Fólk sér oft eitthvað á markaði eða í búð sem það langar í en hættir við að kaupa það því það heldur að það fái betri díl annars staðar eða jafnvel að það muni koma aftur í búðina síðar. Þetta gerist nær aldrei og fólk lendir í því að sjá eftir hlutnum alla ævi.

Að treysta hótelum sem segjast vera miðsvæðis. Skoðaðu vel og vandlega hvar hótelið er staðsett á korti en ekki treysta í blindni þegar hótel segist vera miðsvæðis. Ferðamenn hafa lent í því að eyða nærri klukkustund á dag og miklu fé í að komast að miðbænum frá hótelinu því það valdi hótel sem sagðist vera „rétt við miðbæinn" en reyndist svo vera í einhverju gasalegu úthverfi. 

Ódýrir draslskór. Fólk kaupir oft ódýra og óþægilega sandala fyrir ferðalagið því þeir verða víst bara notaðir í nokkrar vikur. En blöðrur og blóðugar tær verða seint metnar til fjár. Ekki spara þegar kemur að skóbúnaði. 

Myndir. Ekki hlaða hverri einustu mynd af klístrugum matardiskum og byggingum úr fókus á samfélagsmiðla. Það gefur hundruðum vina þinna sjoppulega útgáfu af fríinu og að auki finnst fólki miður skemmtilegt að skrolla sig í gegnum tuga mynda þegar það opnar Facebook hjá sér. Less is more hér. 

Stikkorð: ferðalög  • Vonbrigði  • Vesen  • Rugl  • Örvænting