*

Hitt og þetta 12. júní 2015

23 milljarða Júragarður: Myndband

Aðdáendur kvikmyndanna um Júragarðinn (e. Jurassic Park) hafa tekið saman hvað það gæti kostað að stofna og starfrækja slíkan skemmtigarð.

Fjórða myndin um Júragarðinn (e. Jurassic Park) er nú til sýningar í kvikmyndahúsum. Myndin er byggð á bók eftir Michael Chrichton frá árinu 1990 en fyrsta kvikmyndin kom út árið 1993 í leikstjórn Steven Spielberg. Líkt og flestir vita fjalla myndirnar um sérstakan skemmtigarð í Kosta Ríka þar sem risaeðlur eru til sýnis. 

Þótt kvikmyndirnar séu ekkert nema skáldskapur þá hefur það ekki stöðvað hóp aðdáenda þeirra við að reikna það út hvað það þurfi nákvæmlega mikla fjárfestingu til að stofna og starfrækja slíkan skemmtigarð. Í meðfylgjandi myndbandi sést hvernig þeir reikna út kostnaðinn en þeir leggja m.a. út frá lóðarkostnaði á eyjum Kosta Ríka, kostnaði við klónun hunda og byggingarkostnaði stærstu skemmtigarða í heiminum. Heildarstofnkostnaður Júragarðsins samkvæmt þeim útreikningum er rúmir 23,4 milljarðar bandaríkjadollarar.

Til að leggja mat á rekstrarkostnað garðsins var miðað við meðalrekstrarkostnað nokkurra stærstu skemmtigarða og dýragarða í heiminum. Það kostar um 11 milljarða bandaríkjadollara á ári fyrir garð af viðlíka stærðargráðu og sá sem sást í fyrstu kvikmyndinni. Hér fyrir neðan er hægt að sjá myndbandið í heild sinni.