*

Heilsa 17. júlí 2013

250 kílómetra óbyggðahlaup á Íslandi

Ísland verður vettvangur Racing The Planet hlaups sem hefst þann fjórða ágúst næstkomandi.

Hið heimsfræga Racing The Planet hlaup verður haldið á Íslandi í byrjun ágúst. Nú þegar hafa um 300 hlauparar skráð sig til leiks og þar af eru þrír Íslendingar. Hlaupið er hluti af 4 Deserts-hlaupinu sem Racing the Planet samtökin skipuleggja. 66°NORÐUR er einn af styrktaraðilum Racing The Planet hlaupsins á Íslandi.

Racing The Planet samtökin, sem eru með aðsetur í Hong Kong. hafa haldið hlaupin í nokkur ár og eyðimerkurhlaupin eru orðin heimsfræg enda þykja þau mjög krefjandi. Fyrsta 4 Deserts-hlaupið fór fram árið 2003 og var hlaupið í fjórum eyðimörkum. Einu sinni á ári er bætt við einu hlaupi á áhugaverðum stað í heiminum og í ár varð Ísland fyrir valinu. Racing The Planet hlaupið á Íslandi hefst 4. ágúst og verða hlaupnir 250 kílómetrar á fimm dögum að mestu um hálendi og aðrar óbyggðir Íslands. Keppendur þurfa að bera allan útbúnað og mat sjálfir. Þeir gista í tjöldum að næturlagi.

Mottó hlaupsins er „Ordinary People doing Extraordinary Things“ sem gæti útlagst sem „venjulegt fólk að framkvæma óvenjulega hluti“, sem er eflaust góð lýsing á þessari miklu áskorun sem er ekki fyrir hvern sem er.

Stikkorð: Hlaup  • Racing The Planet