*

Bílar 13. maí 2017

Á 260 km hraða yfir ísilagt vatn

Tinna Jóhannsdóttir tók við stöðu markaðsstjóra Brimborgar á síðasta ári. Hún kemur úr mikilli bílafjölskyldu þar sem fjölskylduboðin eru undirlögð tali um bíla.

Róbert Róbertsson

,,Ég tók við starfi markaðsstjóra Brimborgar í fyrra en áður hafði ég m.a starfað sem upplýsingafulltrúi og markaðsstjóri hjá ríkisstofnun, verið framkvæmdastjóri í smásölu og innflutningsfyrirtæki og starfað við ráðgjöf.

Mér finnst ég vera starfandi í brjálæðislega spennandi geira sem einkennist af uppgangi og hröðum breytingum. Ytri áhrif eins og strangir mengunarstaðlar og aukin áhersla á rafvæð­ ingu hafa áhrif á markaðinn sem mun að mínu mati taka miklum breytingum næstu árin. Þá hefur aukinn ferðamannastraumur til landsins sett sitt mark á geirann með fjölgun bíla í umferð og miklum vexti bílaleiganna. Út frá markaðslegu hliðinni þá eru líka gríðarlega miklar breytingar að eiga sér stað þar, stafræn markaðssetning og nýir miðlar kalla á öðruvísi samþættingu, margmiðla kauphegðun er að eiga sér stað og neytendahegð­unin öll er að breytast gríðarlega hratt.

Að mínu mati gerir þetta starfið mitt einstaklega skemmtilegt, lærdómsríkt og krefjandi en þessir þrír þættir eru nauðsynlegir í starfi hverrar manneskju að mínu mati,“ segir Tinna.

Starfsemi Brimborgar afar víðfeðm

Brimborg á rætur sínar að rekja aftur til ársins 1964 og síð­ asta ár var afar farsælt í rekstri Brimborgar að sögn Tinnu. Þá fór velta félagsins í fyrsta skipti yfir 18 milljarða og metafkoma var af rekstrinum. Brimborg er með umboð fyrir Volvo, Ford, Mazda, Peugeot og Citroën, selur Volvo og Renault vörubíla, Volvo vinnuvélar, Volvo Penta bátavélar og Volvo rútur auk þess að reka Max1 og Vélaland. Þá segir Tinna að met hafi verið sett í útleigu bíla hjá bílaleigum félagsins en þær eru Thrifty Car Rental, Dollar Rent a Car og Saga Car Rental.

,,Starfsemi Brimborgar er afar víðfeðm og hver dagur hefur sinn sjarma, hvort sem ég er að sýsla með markaðssetningu vörubíla, dekkja, lúxusbíla, notaðra bíla eða bátamótora. Ég stýri deild sem sinnir markaðsmálum fyrirtækisins í heild sinni og okkar deild er öðruvísi en margar sambærilegar deildir í fyrirtækjum af þessari stærðargráðu því við notumst hvorki við auglýsingastofur né birtingarhús. Við hönnum allar okkar auglýsingar innanhúss, búum til efnið og sjáum um birtingar. Vörumerkin eru ólík eins og þau eru mörg og markaðsstarfið tekur að sjálfsögðu mið að því og ólíkum markhópum, snertifletirnir eru margir og því að mörgu að hyggja. Þetta gerir starfið afar fjölbreytt en um leið skemmtilegt og ég er sérstaklega heppin með samstarfsfólkið mitt, í því býr gríðarleg reynsla og þekking og án þeirra væri ég sjálf minni en hálf,“ segir hún.

Nánar er fjallað um málið í Bílar, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.