*

Veiði 18. júlí 2017

Fór 270 metra á 10 sekúndum

Ólafur og María Anna, sem oft eru kennd við verslunina Veiðihornið, hafa í nokkur ár stundað saltvatnsveiði á veturna.

Trausti Hafliðason

Hjónin Ólafur Vigfússon og María Anna Clausen reka verslanirnar Veiðihornið og Veiðimanninn.  Fyrirtækið var stofnað 1998 þegar þau keyptu elstu veiðibúð landsins, Veiðimanninn í Hafnarstræti 5.  Veiðimaðurinn var staðsettur í gamla miðbænum til ársloka 2008 en er nú á Krókhálsi 4.  Veiðihornið hefur verið starfrækt í Síðumúla 8 síðan 2001.

„Við erum búin að veiða saman í 35 ára eða meira," segir Ólafur. „Fljótlega eftir að við stofnuðum fyrirtækið komumst við að því að það væri ekkert mjög sniðugt að vera marga daga í veiði yfir sumartímann þegar mest er að gera.   Þegar mest var hjá mér þá veiddi ég og sinnti leiðsögn í 60 til 80 daga á ári en það fellur ekki vel saman við verslunarrekstur í þessum geira. Þegar maður stendur í slíkum rekstri þá á maður að vera á gólfinu að sinna viðskiptavinum.

Fyrir um það bil sjö árum þá kynntu vinafólk okkar Jerry Siem og Diana Rudolph okkur fyrir saltvatnsveiði. Jerry þekki mjög vel til þessarar veiði enda er hann stangarhönnuður hjá Sage. Við fórum með þeim til Bahamaeyja að veiða bonefish, sem er líklega einn sterkasti fiskur sem þú getur veitt — pund fyrir pund.  Bonefish verður ekkert sérstaklega stór.  Stór Bonefish er 6 tii 8 pund og mjög stór 10 til 12 pund.  Þriggja til fjögurra punda fiskur rífur alla línu og jafnvel undirlínuna út þegar hann tekur rokur, jafnvel tvisvar sinnum.   Eftir þessa ferð var ekki aftur snúið. We were bitten by the saltwater bug, eins og Jerry sagði."

Elta bláleita sandhrauka

Að sögn Ólafs getur þurft að hafa svolítið fyrir því að veiða bonefish því hann er veiddur á grynningum og kann að vera styggur.

„Þessi fiskur étur krabbadýr úr hvítum sandbotninum og þegar hann hefur náð ætinu þá spýtir hann út úr sér sandinum. Þetta þýðir að það er hægt að sjá hvar hann hefur verið með því að skoða botninn því hann skilur eftir sig litla sandhrauka. Fyrst eftir að hann spýtur sandinum eru sandhraukarnir bláleitir en síðan grána þeir og verða loks samlitir botninum. Ef maður kemur auga á þessa bláleitu sandhrauka þá veit maður að það eru nokkrar mínútur síðan torfan var á staðnum og þá getur maður oft fundið hana."

Ólafur og María Anna fóru í nokkur ár til Bahamaeyja en einnig hafa þau farið annað eins og til Seychelles-eyja í Indlandshafi, Jólaeyjar (e. Christmas Island) í Kyrrahafi. Þá hafa þau líka veitt í Karíbahafi við strendur Venesúela.

„Þetta hentar okkur mjög vel því á þessum stöðum er veitt á veturna, sem þýðir að við getum unnið baki brotnu á sumrin þegar veiðitímabilið hér heima stendur hvað hæst og mest er að gera í fyrirtækinu. Nú reynum við að fara í svona tvær til þrjár ferðir yfir vetrartímann."

Í miðju Kyrrahafinu

Þau hjón hafa nokkrum sinnum farið til Jólaeyjar og munu einmitt fara þangað í byrjun næsta vetrar.

„Eyjarnar eru í miðju Kyrrahafinu og því mjög afskekktar. Það er mikil fátækt þarna en eyjaskeggjar eru bæði glaðværir og hjálplegir. Ef fólk er að leita að lúxus þá er þetta ekki rétti staðurinn en ef fólk er á leið í veiði og tilbúið að sætta sig við fábrotnar aðstæður og gerir ekki hæstu kröfur til þriggja rétta máltíða þá er Christmas Island algjörlega rétti staðurinn því veiðin er góð."

Á Jólaeyju er verið að egna fyrir peachface triggerfish og mustache triggerfish, sem og nokkrum tegundum af trevally eða giant trevally, bluefin trevally, golden trevally og striped trevally.  Auk þessara fiska eru milkfish einnig mjög skemmtilegur sportfiskur að sögn Ólafs. Hann segist eingöngu veiða á flugu og notast við níu feta stífar einhendur, með línuþyngdum frá 6 til 12.

„Saltvatnsveiðin byggir yfirleitt ekki á löngum köstum heldur nákvæmum. Triggerfish er ekkert mjög stór en hann getur þó orðið 12 til 15 pund. Ekki er óalgengt að hann elti fluguna á strippi nánast alveg upp að stangartoppi, þá tekur hann og rýkur út með miklum látum. Þetta er fiskur sem leitar skjóls í holum í kóröllum og eftir að hann tekur reynir hann að komast í holuna sína. Ef hann kemst þanngað þá skýtur hann upp fremri bakugganum til að festa sig í holunni. Nafnið er einmitt dregið af þessu hátterni — triggerfish.

Af trevally tegundunum þá er giant trevally (GT) sú eftirsóknarverðasta fyrir veiðimenn. Giant trevally eru ofboðslega grimmir ránfiskar, sem geta orðið allt að 200 pund en 50 til 80 pund er ekki óalgengt. Ég hef veitt einn 50 punda og hann fór með línuna 270 metra á tíu sekúndum."

Tíu á leið til Jólaeyja

Ólafur segir að nú vetrarbyrjun muni fimm hjón eða pör fara saman til Jólaeyjar að veiða.

„Fólkið sem fór með okkur í fyrra forfallaðist og því ákváðum við að kanna hvort einhverjir aðrir hefðu áhuga. Við settum auglýsingu á Facebook og viðbrögðin voru slík að við þurftum að bæta við stöngum. Við förum sem sagt tíu saman og verður hver með sína stöng."

Nánar er fjallað um málið í sérblaðinu Veiði, sem fylgdi Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.