*

Bílar 12. nóvember 2019

300 hestafla tengiltvinnjeppi

Peugeot 3008 SUV PHEV bíllinn er kominn í forsölu hjá Brimborg. Takmarkað magn tengiltvinnbíla koma til landsins.

Róbert Róbertsson

Nýr Peugeot 3008 SUV PHEV tengiltvinnjeppi er á leiðinni og Brimborg hefur nú þegar sett bílinn í forsölu. Peugeot 3008 SUV PHEV kemur með tveimur aflrásum. Annars vegar 225 hestöfl með framdrifi og hins vegar 300 hestöfl með fjórhjóladrifi og í báðum tilvikum með 8 gíra sjálfskiptingu.

Veghæð bílsins er upp á 22 cm. og drægni á 100% hreinu rafmagni allt að 59 km og snögga rafhleðslu þar sem hægt er að fullhlaða á 1:45 klst. Eldsneytiseyðsla í blönduðum akstri er aðeins 1,6 til 2,2 l/100 km. og CO2 losun aðeins frá 33 til 49 gr/km samkvæmt WLTP mælingu.

Sala tengiltvinnjeppa hefur farið vaxandi víða um heim og því verður takmarkað magn í boði á Íslandi en Brimborg hefur tryggt ákveðinn fjölda bíla sem eru nú til forsölu í nýjum vefsýningarsal á brimborg.is. Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hyggjast íslensk stjórnvöld fella niður ívilnanir fyrir kaup á þessari gerð vistvænna bíla í lok næsta árs, á sama tíma og til að mynda Þýskaland eykur þær.

Í fyrstu verður Peugeot 3008 SUV PHEV í boði í GT útfærslu hlaðinn staðalbúnaði auk 300 hestafla vélar og fjórhjóladrifs. Hann er knúinn áfram af annars vegar bensínvél og hins vegar tveimur rafmagnsvélum sem skila samanlagt 300 hestöflum. Hægt er að nota fjórhjóladrifið á 100% rafmagnsstillingu.

Stikkorð: Peugeot  • Brimborg  • ívilnanir  • tengiltvinnbílar