*

Sport & peningar 10. júlí 2012

32 milljónir í boði fyrir sigur á CrossFit leikunum

Verðlaunafé á heimsleikunum í Crossfit hefur hækkað um 3,5 milljónir króna síðan í fyrra. Annie Mist Þórisdóttir á titil að verja.

Gísli Freyr Valdórsson

Fari svo að íþróttakonan Annie Mist Þórisdóttir sigri heimsleikana í CrossFit í ár mun hún fá um 32 milljónir króna í verðlaun, eða 250 þúsund Bandaríkjadali.

Sem kunnugt er sigraði Annie Mist keppnin í fyrra og hlaut þá titilinn hraustasta kona heims. Fyrir sigurinn fékk hún 250 þúsund dali, sem á þáverandi gengi var um 28,5 milljónir króna. Gengi krónunnar hefur þó lækkað síðan þá og nú eru 250 þúsund dalir sem fyrr segir um 32 milljónir króna.

Fyrir annað sætið eru veittir 50 þúsund dalir, eða um 6,4 milljónir króna og fyrir þriðja sætið 25 þúsund dali, eða um 3,2 milljónir króna.

Annie Mist mun keppa á leikunum sem fram fara í Los Angeles um næstu helgi og þar með verja titil sinn. Hún tók fyrst þátt árið 2009 og lenti þá í 11. sæti eftir að hafa lengi vel verið í öðru sæti. Árið 2010 lenti hún í 2. sæti keppninnar og sem fyrr segir sigraði hún í fyrra. 

Annie Mist er þó ekki eini Íslendingurinn sem mun keppa á leikunum. Katrín Tanja Davíðsdóttir, frá CrossFit Stöðinni, hefur náð gríðarlega miklum árangri í greininni þrátt fyrir ungan aldur. Hún er aðeins 19 ára gömul og byrjaði að stunda CrossFit í fyrra. Henni er spáð góðum árangri á leikunum og á Evrópuleikunum í CrossFit og er nú í öðru sæti á eftir Annie Mist í styrkleikaflokki kvenna í Evrópu.

Þá mun Þuríður Erla Helgadóttir, frá CrossFit Sport, einnig keppa á leikunum. Hún er tvítug. Þá verður einnig lið frá CrossFit Reykjavík í liðakeppninni.