*

Bílar 17. febrúar 2014

3,2 sekúndur í hundraðið

Huacan er gríðarlega öflugur og með 610 hestafla, 5,2 lítra V10-vél.

Einn mest spennandi bíllinn sem sýndur verður á bílasýningunni í Genf, sem hefst 4. mars, er klárlega Lamborghini Huracan. Þetta er nýjasti sportbíllinn úr smiðju ítalska sportbílaframleiðandans og er ætlað að leysa annan ítalskan sportbíl, Lamborghini Gallardo, af hólmi. 

Huracan hefur þegar vakið mikla athygli og þótt hann hafi ekki verið sýndur opinberlega hafa þegar um 700 pantanir borist í bílinn. Það er eiginlega með ólíkindum en svona er það nú samt ef marka má upplýsingar frá framleiðandanum.

Huacan er gríðarlega öflugur eins búast má við frá Lamborghini. Hann er með 610 hestafla 5,2 lítra V10-vél. Hann fer úr kyrrstöðu í hundraðið á 3,2 sekúndum. Samkvæmt upplýsingum frá breskum bílablöðum mun nýi sportbíllinn kosta um 200 þúsund pund í Bretlandi eða um 40 milljónir króna.