*

Bílar 24. apríl 2015

33% bílaflotans eru 6-10 ára

Bílaflotinn á Íslandi var að meðaltali þremur árum eldri en í Evrópusambandinu árið 2011.

Guðjón Guðmundsson

Samtök bílaiðnaðarins í Evrópu (ACEA) taka saman tölur um meðalaldur í ýmsum Evrópulöndum ásamt því að reikna meðalaldur bíla í aðildarlöndum Evrópusambandsins. Af þeim löndum sem voru til skoðunar árið 2011 var bílaflotinn hér á landi sá þriðji elsti á eftir þeim eistneska og finnska.

Við árslok 2014 var meðalaldur íslenska fólksbílaflotans kominn upp í 12,7 ár og hefur aldrei verið hærri. Í Árbók bílgreina, sem Bílgreinasamband Íslands og Rannsóknasetur verslunarinnar gefa út, segir að rekja megi hækkandi meðalaldur fólksbílaflotans til hruns sem varð í innflutningi nýrra bíla árið 2009 þegar nýskráningar náðu sögulegu lágmarki. Þrátt fyrir að nýskráningum hafi fjölgað síðari ár er hlutfall bíla fimm ára og yngri eingöngu 16% af bílaflotanum. Þetta hlutfall var jafnan á bilinu 30-40% fram til ársins 2009.

Stærsti hluti bílaflotans, eða um þriðjungur, er á aldrinum 6-10 ára. Þetta eru bílar sem fluttir voru inn á árunum 2004-2008. Næst flestir bílar eru 11-15 ára en samanlagt eru um 55% flotans á þessum aldri.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.