*

Bílar 2. febrúar 2020

34,8% samdráttur í bílasölu

Bílaleigur kaupendur ríflega 40% af seldra bíla á síðasta ári, en vistvænir bílar nálgast þriðjung. Salan jókst undir lok árs.

Róbert Róbertsson

Sala nýrra fólksbíla á árinu 2019 var talsvert minni en 2018 en í heildina seldust 11.728 nýir fólksbílar árið 2019 miðað við 17.976 bíla árið 2018. Samdráttur nemur um 34,8% á milli ára.

Bílasala jókst eilítið þegar leið á árið og í desember varð 22,0% söluaukning þegar 587 bílar seldust í samanburði við 482 bíla í desember 2018. Þetta er í fyrsta skipti í hátt í tvö ár þar sem söluaukning verður í einstökum mánuðum á milli ára samkvæmt upplýsingum frá Bílgreinasambandinu.

Af þeim 11.728 sem seldust á árinu voru bílaleigur kaupendur að 4.866 bílum sem er 41,5% hlutfall af heildarsölu ársins. Hlutfall vistvænna bíla (rafmagn, tengiltvinn, hybrid, metan) hélt áfram að aukast og hefur hlutfall þeirra af heildarsölu aldrei verið hærra eða 27,5%. Fara þar tengiltvinnbílar fremstir í flokki með um 10,3% sölunnar, Hybrid bílar um 8,9% og rafbílar um 7,8%. Eru þetta hlutfallstölur sem eru fáheyrðar annars staðar í heiminum fyrir utan Noreg og er líklegt að Ísland verði áfram í fararbroddi þar sem horft er til framlengingar á ívilnunum vegna vörugjalda við kaup á slíkum bílum.

Toyota söluhæst í 30 ár samfellt

Toyota var söluhæsta vörumerkið á árinu með 16,8% hlutfall sölunnar. Kia var í öðru sæti með 12,6% hlutdeild og Hyundai í því þriðja með 6,8%. Volkswagen var í fjórða sæti með 6,1% hlutdeild, Nissan í því fimmta með 5,9% og Dacia í því sjötta með 5,1%. Toyota hefur verið mest seldi bíllinn á Íslandi í 30 ár samfellt sem verður að teljast ótrúlegur árangur.

Nýr RAV4 var söluhæsti Toyota bíllinn á síðasta ári. Mitsubishi Outlander PHEV var söluhæsti bíll Heklu. Kia Sportage var söluhæsti bíll Öskju. Dacia Duster var vinsælasti bílaleigubíllinn þriðja árið í röð. Rafbíllinn Nissan Leaf var söluhæstur hjá BL og Hyundai Kona í öðru sætinu.

BGS spáir 8,7% söluaukningu á árinu

„Bílgreinasambandið telur að ýmsar ástæður hafi verið fyrir því að niðursveiflan 2019 hafi verið meiri en búist var við á árinu 2019 og jafnframt að ýmsar forsendur séu til staðar til að salan taki aftur við sér og aukist að nýju. Eyðsla og mengun bíla með hefðbundnum orkugjöfum fer sífellt lækkandi ásamt því sem úrval og drægni bæði rafmagns- og tengiltvinnbíla er að aukast og mun það halda áfram á árinu 2020,“ segir María Jóna Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins.

„Þetta ætti að leiða til þess að fleiri einstaklingar og fyrirtæki finni sér valkost sem hentar þeim auk þess sem búið er að eyða óvissu um hvort vistvænir bílar njóti áfram ívilnana við kaup. Þá er einnig líklegt að bílaleigur þurfi að halda áfram að endurnýja flotann sinn þar sem hann hefur elst á síðustu misserum. Meðalaldur fólksbílaflotans er einnig að hækka en stórir árgangar í bílaflotanum eru komnir á meðalaldur sem í fyrra var 12,3 ár og fer hækkandi. Bílgreinasambandið spáir því að 12.750 bílar seljist á árinu 2020 og verður það þá 8,7% söluaukning frá árinu 2019.“