*

Hitt og þetta 3. febrúar 2006

3,5 milljarða mennirnir farnir!

Það vakti furðu litla athygli þegar spurðist af því að 21 af 24 starfsmönnum Icelandic Asia hefði sagt upp störfum. Starfsmennirnir hafa stofnað sitt eigið fyrirtæki, Asia Seafood Inc., en eins og greint var frá í Morgunblaðinu er ástæða uppsagnarinnar óánægja með stjórnendur Icelandic Asia. Mun þetta nýja fyrirtæki starfa í beinni samkeppni við Icelandic Asia. Glöggir menn sem fylgst hafa með uppskiptum Icelandic Group á meðan Straumur og Landsbankinn unnu að "endurskipulagningu" þess sjá að þetta er töluvert áfall fyrir félagið enda má segja að þessi starfsemi í Asíu hafi nýlega verið metin á 3,5 milljarða króna eftir að starfsemin hafði verið lögð inn í Icelandic Group í gegnum flóknar eigendabreytingar sem ekki er ástæða til að rekja hér. Gárungarnir sögðu að þær hefðu verið svo flóknar að meira að segja Ólafur Ólafsson hefði misst yfirsýn yfir þær. Margir hefðu talið að minni áföll hefðu átt skilið tilkynningu í Kauphöllina en stjórnendur Icelandic Group gerðu það hins vegar samviskusamlega þegar þeir sögðu upp starfsmönnum í Þýskalandi skömmu síðar. Margir telja að sölustarfsemi sem þessi snúist fyrst og fremst um sölusambönd sölumanna eins og kom í ljós í málaferlum SÍF við fyrrverandi starfsmenn sína. Því er spurning hvort hægt er að kveðja 3,5 milljarða króna mennina í Asíu.

Hyggjast breyta nafni SÍF
-- Og áfram um erfiðleika stóru sölufyrirtækjanna sem margir skilja ekki lengur af hverju eru í Kauphöllinni. Meðal þeirra tillagna sem hafa verið lagðar fyrir hluthafafund SÍF hf. 9. febrúar næstkomandi er ósk stjórnar félagsins um heimild til að breyta nafni SÍF og gera þær breytingar sem slíkri ákvörðun fylgja. Í greinargerð með tillögunni kemur fram að í "...ljósi þeirra miklu breytinga sem orðið hafa á rekstri SÍF hf. að undanförnu telur stjórn félagsins nauðsynlegt að breyta um heiti á félaginu, m. a. til að endurspegla enn betur hið nýja og breytta félag. Verði tillagan samþykkt hyggst stjórn félagsins kynna nýtt heiti á félaginu eftir stjórnarfund sem haldinn verður strax að loknum hluthafafundinum." Nú er spurning hvort SÍF undir nýju nafni verður betri söluvara en bréf félagsins hafa skilað vægast sagt slakri afkomu undanfarið og skiptir engu þó greiningardeild Íslandsbanka setji verðmatsgengið á 5,4. Bréf SÍF rjátlast nú í kringum 4 og lítil viðskipti.

Baugur eignast allt og alla!
Það vakti að sjálfsögðu mikla athygli þegar spurðist að Þorsteinn Pálsson hefði verið ráðinn í ritstjórastól Fréttablaðsins og undruðust auðvitað margir sem höfðu fylgst með átökum stjórnenda og eigenda Fréttablaðsins við Sjálfstæðisflokkinn. Það að Ari Edwald skyldi vera ráðinn forstjóri 365 miðla gaf þó vísbendingu um það sem koma skyldi en Ari var pólitískur aðstoðarmaður Þorsteins Pálssonar í átta ár, fyrst í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu og síðar í sjávarútvegsráðuneytinu. Hvað lesa má út úr þessum ráðningum vekur þó heilabrot manna þó sumir segi að þetta sýni bara að Baugsmenn geti keypt allt og alla á Íslandi í dag. Enginn efast þó um að Þorsteinn Pálsson mun móta sjálfstæða ritstjórnarstefnu enda gerir ríkulegur eftirlaunapakki hann fjárhagslega sjálfstæðan.

Fleiri inn á "gráa markaðinn"
Undanfarið hafa margir hafið sjálfstæðan innflutning á bílum en stundum eru þessir óháðu innflytjendur felldir undir samheitið "grái markaðurinn". Margir þessara innflytjenda hafa náð góðum árangri og nú hefur Halldór Baldvinsson, löggildur bifreiðasali, stofnað fyrirtækið A7 og hafið innflutning á glæsibílum en hann tengdist Master í Glæsibæ áður.