*

Hitt og þetta 28. apríl 2006

365 heldur meistaradeildinni

Nýlega náðu 365 miðlar að ganga frá samningi vegna útsendingarréttar á meistaradeild Evrópu en sú keppni hefur verið ein helsta skrautfjöður Sýnar eftir að þeir misstu ensku knattspyrnuna yfir til Skjás 1. Eftir því sem komist verður næst var nokkur barátta um meistaradeildina enda sóttist Skjár 1 eftir því að ná keppninni og segja sumar heimildir að þeir hafi boðið heldur hærra en 365 miðlar. Það er evrópska knattspyrnusambandið (UEFA) sem hefur mest með samningana að gera og hafa þeir verið áhugasamir um að tryggja umgjörð keppninnar og verið ánægðir með hvernig það hefur verið hjá Sýn. Öll þessi barátta hefur þó leitt til þess að verið er að borga talsvert hærra fyrir keppnina en áður og munu forráðamenn 365 hugsa Skjá 1 þegjandi þörfina nú þegar styttist í að samið verður um ensku knattspyrnuna. Er gert ráð fyrir að það verði hörð barátta um að tryggja réttinn enda má segja að enski boltinn á Skjá 1 megi illa við því að missa enska boltann!

Hvar býr Jón Ásgeir?

Það vakti athygli margra að Jón Ásgeir Jóhannesson skyldi ekki vera á ríkra manna lista Sunday Times í ár en listinn miðast við þá sem eru búsettir í Englandi. Jón Ásgeir var í 751. sæti listans fyrir ári en eignir hans voru þá metnar á um 65 milljónir punda eða 7,5 milljarða króna. Hann var þá í blaðinu sagður ríkastur þeirra íslensku kaupsýslumanna sem kaupi bresk fyrirtæki í gríð og erg. Menn átta sig ekki almennilega á því af hverju Jón Ásgeir er ekki á listanum núna enda almennt talið að vel hafi gengið í fyrirtækjarekstri hans núna. Því hefur reyndar verið fleygt að hann sé farinn að hugsa sér til hreyfings og íhugi jafnvel að flytja frá London til New York. Þar mun unnusta hans, Ingibjörg Pálmadóttir, vera að hreiðra um sig.

Flug á Hannesi

Hannes Smárason, forstjóri FL Group, fór mikinn á fundi sem hann stóð fyrir meðal stúdenta við Háskólann í Reykjavík í gær. Hann fór rækilega yfir fjárfestingar fyrirtækisins að undanförnu og vakti margt af því sem hann sagði athygli. Meðal annars það að hann taldi að bankarnir, Seðlabankinn og ríkisstjórnin hefðu gert mistök við að koma upplýsingum á framfæri til erlendra greiningaraðila að undanförnu. Einnig var forvitnilegt að hlýða á lýsingu hans að aðkomu að Sterling og Mærsk. Sagði hann að það hefði verið ótrúlegt að fá innsýn í þau vinnubrögð sem tíðkuðust meðal verkalýðssamtaka starfsmanna Mærsk. Þannig hefði verið mjög erfitt að eiga við þau samtök. Einnig rakti hann aðkomu félagsins að Aktiv Kapital í Noregi en þar á félagið 10% hlut með John Fredriksen, einum auðugasta manni Noregs. Félagið kaupir kröfur og reynir að vinna úr þeim með "ágengri innheimtu". Var á Hannesi að heyra að þarna gætu skapast tækifæri til þess að vinna með Glitni en þar á FL Group nú um 16% hlut. Þær upplýsingar vöktu sem vonlegt er athygli enda ekki vitað áður að slík áform væru í gangi. Hannes rakti einnig aðkomu þeirra að Refresco, Finnair og Bang & Olufsen sem hann taldi vanmetið félag eins og uppgjör þess í síðustu viku hefði sýnt. Þá sagði Hannes að B&O væri með allt of mikið eigið fé sem gæti gefið færi á auknum arðgreiðslum. Kom fram í máli Hannesar að félagið á B-hlutdeildarskýrteini í félaginu sem hafa aðeins helmings atkvæðavægi. Hannes sagði þó að félagið hefði öfluga stöðu í B&O og svipað atkvæðavægi og stofnendur þess.