*

Bílar 6. febrúar 2015

39 milljóna Mercedes-Benz kominn til landsins

Bílinn er af gerðinni S-Class. Fjöldi fyrirspurna hefur borist um bílinn en hann er óseldur.

Askja, umboðsaðili Mercedes-Benz á Íslandi, hefur fengið í hús Mercedes-Benz S500 AMG-line með lengra hjólhafi og er bíllinn til sýnis og sölu í sýningarsal fyrirtækisins á Krókhálsi. Bíllinn er með öllum hugsanlegum búnaði og verðmiðinn hljóðar upp á 38,7 milljónir króna.

Nýja S-línan hefur vakið athygli víða um heim fyrir hátæknivæddan búnað. Meðal þess sem bíllinn státar af er sjálfvirkt fjöðrunarkerfi sem byggir á myndavélabúnaði sem skannar veginn framundan og lagar fjöðrunina að ójöfnum áður en ekið er yfir þær. 

Bíllinn er 15 sm lengri en hefðbundin gerð og býður þar af leiðandi upp á umtalsvert meiri þægindi fyrir aftursætisfarþega. Hann er með V8 vél og er með 4matic aldrifskerfinu. Í bílnum er nánast allur sá búnaður sem fáanlegur er í bíl þessarar gerðar, þ.á m. sjálfvirkt fjöðrunarkerfi, Burmeister hljómkerfi, blindvari, akreinavari  og margt fleira.

Samkvæmt upplýsingum frá Öskju er bíllinn óseldur en fyrirtækinu hefur borist fjöldi fyrirspurna. 

Viðskiptablaðið reynsluók S350 fyrir rúmu ári. Hér má lesa stutta umfjöllun um það og umfjöllun í VB sjónvarpi.

Bíllinn er gríðarlega vel búinn.

Bíllinn er 15 cm lengri en hefðibundinn S-Class. Því er mikið pláss fyrir farþegana aftur í.

4 MATIC stendur fyrir fjórhjóladrif. Bíllinn er með AMG útlitspakka eins og sést á felgunum.