*

Bílar 30. mars 2019

404 hestafla lúxusjeppi

Fyrsti tengitvinnbíl lúxusbílaframleiðandans Jaguar Land Rover, er flaggskipið Range Rover, sem kom fyrst fram 1970.

Róbert Róbertsson

Range Rover kom nýverið fram á sjónarsviðið í nýrri tengiltvinnútfærslu. Þetta er í fyrsta skipti sem breski lúxusbílaframleiðandinn Jaguar Land Rover kemur fram með Plug-in Hybrid útfærslu á sínum bílum og gerir það fyrst á flaggskipi sínu. Bíllinn er bæði eyðslugrennri og umhverfismildari en áður og auk þess með enn meiri krafta í kögglum. Samanlagt afl með bensínvél og rafmótor er 404 hestöfl sem er prýðilegt fyrir þennan stóra jeppa.

Range Rover kom fyrst á markað árið 1970 og hefur ætíð síðan vakið mikla athygli. Óhætt er að fullyrða að þetta sé hljóðlátasti Range Rover sem framleiddur hefur verið þegar honum er ekið á rafmagninu. Range Rover PHEV á að aka allt að 51 km á rafmótornum eingöngu samkvæmt upplýsingum frá framleiðandanum. Vissulega fer vegalengdin eftir aksturslagi, en í hagkvæmum akstri við góðar veg- og veðuraðstæður ætti drægnin að nægja flestum notendum hér á landi til daglegra ferðalaga til og frá vinnu. Það er harla gott sé litið til þyngdar bílanna sem er um 2,5 tonn.

Mikið afl og lítil meðaleyðsla

Tengiltvinnútgáfa Range Rover er ekki bara hljóðlát og sparneytin heldur er hún einnig mjög kraftmikil. Lúxusjeppinn er búinn tveggja lítra, 300 hestafla Si4 Ingenium-bensínvél og afkastamiklum 85 kW rafmótor við 13 kWh rafhlöðu sem saman skila 404 hestöflum. Hröðun Range Rover PHEV frá 0-100 km/klst. er 6,8 sekúndur. Við aflrás jeppans er átta þrepa sjálfskipting og millikassi með tveimur drifum, háu og lágu.

Eyðslan í blönduðum akstri er frá 3,1 lítra á hundraðið og CO2 losunin er frá 64 g/km. Hvort tveggja mjög góður árangur fyrir svo stóran og þungan jeppa.

Hægt er að fullhlaða rafhlöðu tengiltvinnbíla Range Rover gegnum venjulega rafmagnsinnstungu og tekur fullhleðsla rúmar sjö klukkustundir. Með heimahleðslustöð styttist hleðslutíminn í innan við 3 klukkustundir samkvæmt upplýsingum frá framleiðanda.

Íburður og tækni

Hönnun bílsins er mjög falleg og klassísk í alla staði. Jeppinn er stór og voldugur á velli og samsvarar sér vel í alla staði. Flæðandi þaklína, vel hannað grillið og aðalljós með margskiptum LEDgeislaperum gera allt sitt fyrir útlitið. Hleðslutengingin er falin í grillinu þar sem hún sést ekki en hægt er að smella frá smá loku í grillinu til að opna fyrir hleðslutenginguna og loka henni síðan aftur eftir að hleðslu lýkur.

Íburðurinn er mikill í innanrýminu og vandað er til verka. Götuð Windsor leðursætin eru mjög þægileg og flott. Þau eru rafdrifin og búin fjölmörgum stillingum, t.d. bæði hita og kælingu svo fátt eitt sé nefnt.

Það er sérlega gott pláss í jeppanum enda mjög hátt til lofts og stórir og háir gluggar sem gefa mjög gott útsýni úr bílnum. Það fer mjög vel um farþega og leðursætin eru mjög þægileg og veita mikinn stuðning. Farangursrýmið er mjög rúmgott eða 900 lítrar með öll fimm sætin uppi.

Gagnvirkur skjárinn og Touch Pro Duo tæknin býður upp á fjölmargt varðandi aksturinn og afþreyingu. Upplýsinga- og afþreyingarkerfin í þessum bíl eru raunar sér kapituli út af fyrir. Skjárinn er ekki sá stærsti en dugar flestum. Meridian hljóðkerfið er mjög gott og gefur góðan hljóm í bílnum.

Fágaður akstur

Aksturseiginleikarnir eru sérlega fágaðir og góðir. Maður svífur nánast um eins og í þotu. Maður finnur vel að jeppinn er aflmikill og öruggur í akstri með sítengdu aldrifinu. EV-stillingin tryggir hnökralausa skiptingu á milli bensínvélar og rafmótors sem viðheldur áfram fáguðum akstri. Stýringin er nákvæm og örugg á þessum stóra bíl. Stýrið er stórt og kannski of stórt ef ég á að setja út á eitthvað varðandi bílinn. En þetta er stór bíll og breski lúxusbílaframleiðandinn hefur hugsað það þannig með stýrið.

Akstursgeta jeppans er mjög góð og hann þolir alveg að fara út af malbikinu. Vaðdýptin er 900 mm þannig að það er hægt að reyna ýmislegt á þennan lúxusjeppa. Þess má geta að hægt er að fá bílinn með vaðskynjurum í hliðarspeglunum sem gefa merki þegar vatnshæðin er að nálgast hámarksvaðdýpt bílsins. Stjórnkerfið býður upp á upplýsingar í rauntíma og er sérlega gagnlegt eftir að dimma tekur.

Hann stendur sig vel á malbikinu enda gefur rafræn loftfjöðrunin mikla mýkt í akstrinum hvort sem ekið er á bundnu eða óbundnu slitlagi. Terrarin Responde 2 kerfið lagar viðbragð vélar, mismunadrifs og undirvagns að akstursskilyrðum hverju sinni. Hægt er að velja á milli sjö stillinga; kraftstillingar, Eco, Comfort, stillingar fyrir gras, möl eða snjó, stillingar fyrir aur og hjólfær og loks grjótskriðsstillingar.

Mikill staðalbúnaður

Meðal staðalbúnaðar í bílunum má nefna rafræna loftfjöðrun, stöðugleikastýringu með gripstjórnun og spólvörn, veltivarnarstýringu, rafstýrt hemlakerfi og hallastýringu ásamt hemlajöfnun, inngjafarstjórnun og hemlastjórnun. Þá er jeppinn einnig búinn nálgunarvörum og bakkmyndavél svo fátt eitt sé nefnt.

Range Rover kemur í þremur útfærslum, Vogue, Vogue SE og Autobiography sem er best búinn af þeim. Range Rover PHEV kostar frá 17.390.000 króna. Þetta er vissulega mikið verð en er fyrir mikinn bíl sem er að morgu leyti hagkvæmur með minni eyðslu og mengun en áður. Tengiltvinnútfærslan er um fjórum milljónum króna ódýrari en hefðbundinn Range Rover með bensínvél.

Nánar má lesa um málið í Bílar, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.

Jeppinn er stór og voldugur á velli og samsvarar sér vel í alla staði. Samanlagt afl með bensínvél og rafmótor er 404 hestöfl sem prýðilegt fyrir þennan stóra jeppa.