*

Ferðalög & útivist 2. maí 2013

46 staðir sem vert er að heimsækja árið 2013

Ghana, Falklandseyjar eða Níkaragúa? Þetta eru staðir sem fólk ætti að heimsækja í ár samkvæmt The New York Times.

The New York Times hefur tekið saman þá 46 staði í heiminum sem þeir telja vert að heimsækja árið 2013. Ástæða þess að fólk ætti að fara núna 2013 er að árið 2014 verða „allir" komnir á þessa staði. 

Svo, ef fólk er með valkvíða yfir því hvert eigi að fara í sumar og vill að auki vera á undan straumnum þá má sjá nánari upplýsingar um þessa vönduðu upptalningu hér.

Staðir sem nefndir eru í greininni eru meðal annarra Rio de Janeiro. Heimsmeistaramótið í fótbolta (2014) og Ólympíuleikarnir (2016) verða haldnir í borginni svo tiltekt og yfirhalning er í fullum gangi. Myndlistarsýningar, sinfóníutónleikar og ýmsir aðrir listviðburðir eru á döfinni í sumar. Í vor opnaði Rio Museum of Art á svæði við höfnina sem áður var í niðurníðslu. VillageMall verslunarmiðstöð opnaði í vetur þar sem hægt er að fá merkjavörur á góðu verði. Rio de Janeiro er því í mikilli uppsveiflu og nú er rétti tíminn að fara, ekki eftir ár þegar allar fótboltabullur heimsins verða rúllandi um göturnar með bjórdósir og glóðaraugu.

Einnig er mælt með fallega hafnarbænum Vernazza á Ítalíu. Bærinn er einn af fimm bæjunum sem kallast „Cinque Terre". Bærinn er á vesturströnd Ítalíu á svæði sem er oft kallað „Ítalska rivíeran.” Í október 2011 varð bærinn fyrir aurskriðum en tekist hefur vel til að laga skemmdirnar. Í bænum er ótrúlega skemmtilegt andrúmsloft og sérstök ítölsk stemning enda eru íbúar mjög stoltir af bænum sínum.

The Adirondaks í New York fylki er staðurinn fyrir útivistarfólk. Svæðið er gríðarlega fallegt, mikið um fjöll og vötn og endalausir möguleikar fyrir fólk sem er hrifið af útiveru. Á sumrin má ganga á fjöll og fara á sjóskíði og á veturna er hægt að fara á skíði. Í litlum bæjum á svæðinu má finna ekta bandarískt handverk, eins og húsgagnahönnun sem er mjög þekkt og verður sífellt vinsælli hjá hipp og kúl liðinu á Manhattan. Vetrarólympíuleikarnir voru haldnir í Lake Placid sem telst einn frægast bærinn á svæðinu. Það er mikið af fallegum veitingastöðum við Lake Placid vatn og ýmislegt annað fínt og skemmtilegt.