*

Bílar 14. september 2018

4x4 sýningar í Fífunni og hjá Heklu

Bæði Hekla og Ferðaklúbburinn 4X4 halda jeppasýningar um helgina, þar á meðal verða nýir Musso jeppar til sýnis.

Það verður nóg um að vera fyrir jeppaáhugamenn um helgina. Sérstök 4x4 sýning verður 35 ára afmælissýningu Ferðaklúbbsins 4X4 í Fífunni alla helgina og Hekla verður einnig með 4x4 sýningar á morgun, laugardag.

Tveir af nýjust sportjeppum SsangYong, Musso og Rexton verða forsýndir á 35 ára afmælissýningu Ferðaklúbbsins 4X4 í Fífunni. Rexton hlaut núverið verðlaun sem besti 4x4 bíllinn hjá hinu virta tímariti 4X4 Magazine.

Rexton hlaut líka hæstu einkunn í samandregnu heildarmati á  eiginleikum allra jeppanna í 4X4 flokknum. Á meðal þeirra sem Rexton atti kappi við voru nöfn einsog Jeep Wrangler JK, Mercedes-Benz G-Class og Toyota Land Cruiser.

Margir landsmenn eiga góðar minningar um hörkutólið Musso sem sló öll sölumet hérlendis á árunum 1995 til 2001, en þá var framleiðslu hans hætt. Orginal Musso jepparnir eru ennþá áberandi í umferðinni og hundruðir Íslendinga eru í hópi áhugamanna um Musso á Facebook, þó rúm 20 ár séu liðin síðan þeir komu til landsins. Það segir sína sögu.

Margir hafa því átt sér þá ósk að framleiðsla á Musso hæfist á ný. Og nú hefur hún ræst. SsangYong hefur átt í vandræðum með að anna eftirspurn eftir nýja Musso og leggur fyrst um sinn áherslu á að framleiða upp í forpantanir á Asíumarkað, en Ísland er komið framarlega í röðina og báðir þessir jeppar eru væntanlegir í sölu hérlendir um áramótin samkvæmt upplýsingum frá Bílabúð Benna, sem er umboðsaðili SsangYong á Íslandi.

Auk SsangYong jeppanna sem forsýndir verða eru yfir 100 glæsilegir ferðajeppar klúbbfélaga til sýnis auk þess sem fjölmörg fyrirtæki verða með kynningu á því nýjasta sem þeir hafa að bjóða. Sýningin hefst í dag og stendur fram á sunnudag.

Þá verður Hekla með jeppasýningu á morgun kl. 12-16 þar sem allt það nýjasta í þessum flokki frá Audi, Volkswagen, Skoda og Mitsubishi. Auk þess verða frumsýningar á tveimur nýjum sportjeppum, nýjum Kia Sportage hjá Öskju og Mazda CX-3 hjá Brimborg, á morgun kl. 12-16.