*

Hitt og þetta 8. apríl 2013

5 atriði sem vert er að hafa í huga fyrir sólarlandaferð

Sólarlandaferðir geta verið stórkostlegar. En þær geta líka verið glataðar.

Lára Björg Björnsdóttir

Hér koma nokkur atriði sem vert er að hafa í huga áður en kreditkortanúmerinu er slegið inn í tölvuna og hundruðum þúsunda spanderað í sólarlandaferð.

Tímasetning: Verður unglingurinn á heimilinu með í för? Bókaðu ferðina yfir verslunarmannahelgina. Er saumaklúbburinn búinn að plana vikudvöl í tjöldum uppi á hálendinu þar sem ætlunin er að „hafa það flott þrátt fyrir engan kamar“? Bókaðu sólarlandaferðina „óvart“ á sama tíma.

Hinir túristarnir: Gúgglaðu bæinn sem þú ert að spá í að heimsækja. Er hann kannski uppáhalds sumarleyfisstaður þjóðar sem er alræmd fyrir að haga sér dólgslega í útlöndum? Ef þú vilt ró og næði er mikilvægt að velja stað sem er vinsæll hjá gömlu fólki. Ekki myndi skaða ef liðið ætti smá pening því ríka fólkið er oft rólegra á ferðalögum en öreigarnir sem eiga það til að bilast yfir bjórdósum og píluspili á börunum eftir of mikla sól og kandífloss.

Matur: Ef matur skiptir þig máli er ekkert grín að velja bæ þar sem vínarsnitsel og pizzur eru það eina sem sem þú fengir í heilar þrjár vikur. Ef myntulaufskjötbaka með handtíndum jurtum úr hlíðum Krítar er efst á óskalistanum þá skaltu rannsaka hvers konar veitingastaðir eru á staðnum sem þú velur.

Ættingjar og nágrannar: Dauði allra fría er að hitta einhvern sem þú nennir ekki að hitta. Spurðu nágranna og jafnvel einstaka ættingja hvort þeir séu nokkuð á leið til sólarlanda í sumar. Það getur verið ævintýralegt klúður að lenda á sama hóteli og fólkið sem býr á númer 15. Sérstaklega ef þeim finnst þetta svo meiriháttar sniðug tilviljun að það planar hvert karíókíkvöldið á fætur öðru með þér og fjölskyldunni. Þeim gæti líka þótt tilvalið að raða sólbekkjunum hlið við hlið á hverjum morgni og leigja kannski litla rútu fyrir alla þegar á að keyra í rennibrautagarðinn eða fara á pizzastaðinn í „hinum bænum“ á eyjunni.

Augnsamband: Talandi um óþolandi fólk. Ekki mynda augnsamband við leiðinlega fólkið í hópnum. Horfðu niður ef þú hittir það í lyftunni og ekki láta það heyra þig eða fjölskylduna tala íslensku. Hér væri í raun sniðugt að kenna börnunum smá hrabl í hebresku svo hægt verði að sporna við sameiginlegum hádegisverðum við sundlaugarbakkann því leiðinlega fólkinu finnst svo meiriháttar að hitta aðra Íslendinga maður.

Fararstjórinn: Hvað annað sem þú kannt að gera af þér á ferðalaginu, aldrei fá fararstjórann upp á móti þér. Hrósaðu klæðaburði, málfari og stíl viðkomandi. Biddu um eiginhandaráritun eftir „Velkomin til Kanarí“ fundinn á hótelinu. Og ef þú þarft að kvarta yfir einhverju, hrósaðu þá alltaf fyrst ala Dale Carnegie. Segðu svo að námskeiðabruðlið fyrir hrun hafi ekki loksins komið að góðum notum. 

Stikkorð: Sólarlandaferðir  • Leiðindi  • Vandræði