
Bugatti Royale Berline de Voyage er fimmti dýrasti bíll í heimi samkvæmt úttekt Bílablaðs Viðskiptablaðsins, Bílar, sem kom út í síðustu viku.
Bíllinn seldist á 6,5 milljónir dala árið 1986. Er það um 2 milljarðar króna á núverandi verðlagi.
Bíllinn var í eigu Bugatti-fjölskyldunnar. Hann var múraður inni í seinni heimsstyrjöldinni til að koma í veg fyrir að nasistar kæmust yfir hann.
Fjölskyldan seldi bílinn árið 1950 til ameríska Le Mans ökuþórsins Briggs Cunningham í staðinn fyrir ísskáp frá General Electric, sem kostaði þá tæpa 600 Bandaríkjadali og var ófáanlegur í Frakklandi eftir stríð. Verðið tekur mið af algjöru hruni frankans.
Bíllinn var þá í lélegu standi. Tom Monaghan, stofnandi Domino´s, átti bílinn um tíma en hann er nú í eigu Blackhawk Collection í Kaliforníu.