*

Bílar 17. febrúar 2015

50 ára gamall Ford Mustang

Jósef Kristjánsson á 50 ára gamlan Ford Mustang. Allt í bílnum er upprunalegt - meira að segja framrúðan.

„Mustanginn er mikill gullmoli og mér þykir ákaflega vænt um hann. Hann er framleiddur 1964 og maður að nafni Richard Bestidas, búsettur í Kaliforníu, keypti hann þann 9. nóvember það sama ár,“ segir Jósef Kristjánsson um 50 ára gamlan Ford Mustang í hans eigu, en Viðskiptablaðið birti myndskeið af bílnum í síðustu viku.

Hann segist hafa í höndunum alla pappíra og sögu bílsins. „Reyndar sérhverja nótu allt frá 1964. Ég get séð að þessi bíll var númer 30 af færibandinu. Bíllinn var í eigu Bestidasfjölskyldunnar til 1987. Bíllinn kom til Íslands árið 2007. Hann var rifinn í sundur og gerður upp. Ég eignaðist hann árið 2011. Ég fékk mikinn Mustang sérfræðing til að koma og fara yfir bílinn með mér og hann var ákaflega hrifinn eins og ég,“ segir Jósef.

Jósef segir að allt sé upprunalegt í bílnum - meira að segja framrúðan. „Ég var að spá í að skipta um nokkra hluti, m.a. þriggja gíra kassann og fá mér fjögurra gíra í staðinn en svo hætti ég við það allt. Mér fannst réttast að halda öllu upprunalegu í honum eins og hann kom af færibandinu árið 1964,” segir Jobbi og bætir við að vel hafi verið hugsað um bílinn í Kaliforníu og hann taki við því hlutverki að halda honum vel við.

Vélin í bílnum er 4,7 lítra og skilar 200 hestöflum. Jobbi segir að það sé prýðilegt fyrir þennan 50 ára gamla sportbíl.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.