*

Bílar 20. janúar 2014

50 Land Cruiser jeppar seldir í janúar

Þrjátíu nýir LandCruiser bílar hafa verið seldir einstaklingum það sem af er ári. Það jafngildir einum á dag.

Toyota Land Cruiser hefur verið vinsælasti jeppinn á Íslandi undanfarinn áratug og ekkert lát er á vinsældum hans. Þrátt fyrir minnkandi bílasölu síðustu 5 mánuði hefur nýr Land Cruiser 150 slegið í gegn nú í janúar. Nú þegar hafa selst 50 nýir Land-Cruiser jeppar það sem af er janúar að sögn Páls Þorsteinssonar, upplýsingafulltrú Toyota, sem sýnir að vinsældir jeppans eru miklar hér á landi. Af þessum 50 seldu jeppum eru 30 til einstaklinga en 20 til bílaleiga.

„Viðbrögðin við nýjum Land Cruiser eru góð og þegar eru 30 bílar seldir til einstaklinga og fyrirtækja og bílaleigur hafa keypt 20 bíla. 50 Land Cruiser eru því seldir,“ segir Páll.

„Janúarmánuður hefur verið líflegur hjá Toyota. Ber hæst að um þrjú þúsund manns komu á fyrstu bílasýningu ársins þar sem nýr Land Cruiser 150 var kynntur. Viðbrögð við Gæðalánum Toyota þar sem 40% kaupverðs eru lánuð vaxtalaust eru einnig góð og eiga sinn þátt í að sala á nýjum bílum hjá Toyota fer vel af stað á nýju ári,“ segir Páll ennfremur. 

Land Cruiser 150 hefur fengið andlitslyftingu og kemur talsvert breyttur í útliti. Nánar verður fjallað um jeppann þar sem hann verður tekinn í reynsluakstur í Viðskiptablaðinu á fimmtudag. 

Stikkorð: Land Cruiser