*

Bílar 8. febrúar 2016

690 hestafla fjölskyldubíll

Ný fjölskyldubifreið frá Ferrari fer frá kyrrstöðu í hundrað kílómetra á klukkustund á rétt í kringum 3,4 sekúndum.

Ferrari hefur nú tilkynnt um nýja rennireið úr verksmiðjum sínum. Bíllinn ber nafnið GTC4Lusso og er 690 hestafla tryllitæki sem er þó merktur fjölskyldubíll samkvæmt talsmönnum fyrirtækisins.

Bíllinn er óneitanlega fagur sýnum. Hann er fjögurra sæta og því tilvalið að fara með fjölskylduna í bíltúr í tækinu. Bíllinn fer úr kyrrstöðu í 100 kílómetra á klukkustund á rétt rúmlega þremur sekúndum. Hann er með V12 vél og er fjórhjóladrifinn.

Auk þess hafa Ferrari-menn kynnt nýtt stýrikerfi meðfram bílnum - svokallað 4RM-S kerfi - en það gerir bílstjóranum kleift að stýra aftari hjólum bílsins. Það á að auðvelda ökuþórnum að höndla togkraft bílsins hvort sem er í snjó, drullu eða öðrum vegagerðum þar sem lítið grip er fyrir hendi.

Ferrari fór á hlutabréfamarkað vestanhafs í október síðasta árs, en félaginu hefur ekki gengið sérlega vel síðan þá - gengi hlutabréfa lúxusrennireiðaframleiðandans hefur hrunið um einhver 28% síðan þá.

Stikkorð: Bílar  • Ferrari  • GTC4Lusso