*

Bílar 5. desember 2019

733 bílar nýskráðir í nóvember

Nýskráðir fólks- og sendibílar nálgast þrettán þúsund á árinu. Einstaklingar með 40%, bílaleigur 39% og önnur fyrirtæki 21%.

Í nóvember voru 733 fólks- og sendibílar nýskráðir hér á landi, þar af 220 af merkjum frá BL og var markaðshlutdeild fyrirtækisins 30% í mánuðinum. Ellefu fyrstu mánuðina voru 12.392 fólks- og sendibílar nýskráðir samanborið við 19.304 á sama tímabili 2018 og nemur samdrátturinn tæpum 36% milli ára.

Af heildarfjölda fólks- og sendibíla sem nýskráðir hafa verið hér á landi á árinu hafa einstaklingar fest kaup á um 40% nýskráðra, eða 4.962 bílum, fyrirtæki (án bílaleiga) á um 21% heildarfjöldans og bílaleigurnar 39%. Allir þessir meginmarkhópar hafa dregið úr endurnýjun bíla sinna á árinu borið saman við sama tímabil í fyrra; einstaklingar um 42,6%, fyrirtæki um 31,1% og bílaleigurnar um 29,8%.

Dacia langvinsælasti bílaleigubíllinn á Íslandi

Bílaleigur nýskráðu 4.851 bíl fyrstu ellefu mánuðina, þar af 176 í nóvember. Þrjár tegundir BL eru á meðal tíu vinsælustu bílanna hjá bílaleigunum það sem af er árinu, Dacia Duster, Nissan Qashqai og Nissan X-Trail. Dacia er jafnframt vinsælastur allra bíla á þeim hluta markaðarins með alls 480 nýskráningar það sem af er árinu.

Hlutdeild BL það sem af er þessu ári nemur 27,8 prósentum á markaðnum í heild; 24,2% á einstaklingsmarkaði, 27,1 á fyrirtækjamarkaði og 31,9% á markaði bílaleiga.

Nissan með flestar nýskráningar í nóvember

Af merkjum BL var Nissan söluhæstur í nóvember með 74 nýskráningar, Dacia í öðru með 53 nýskráningar og Hyundai í þriðja með 33, þar af 30 til einstaklinga og fyrirtækja. Söluhæsta merki BL til bílaleiga í nóvember var Nissan með 45 nýskráningar. Næstur kom Dacia með 44 skráningar. Af lúxusmerkjum BL var 31 nýskráður í nóvember, flestir frá Land Rover eða 19 og var markaðshlutdeild BL á þeim hluta markaðarins 34,1% í mánuðinum og 35,5% það sem af er ári.

Hjá BL var 121 fólks- og sendibíll nýskráður einstaklingum og fyrirtækjum (án bílaleiga) í nóvember og var þriðjungur þeirra vistmildur bíll, eða 41 talsins; 30 rafbílar, 10 tengiltvinnbílar og einn mildur tvinnbíll (e. mild hybrid). Hlutfall vistmildra bíla hjá BL í nóvember nam 34% heildarfjölda nýskráninga fyrirtækisins til annarra en bílaleiga. Þess má jafnframt geta að á markaðnum í heild var 71 tengiltvinnbíll nýskráður einstaklingum í nóvember, eða 20,5% heildarnýskráninga, og er þetta hæsta hlutfall tengiltvinnbíla í einum mánuði til einstaklinga það sem af er árinu.

Stikkorð: Bílar  • nýskráningar  • BL