*

Bílar 2. ágúst 2019

791 hestafla Pagani Huayra

Ítalski bílaframleiðandinn Pagani Automobili hefur tilkynnt að hann muni kynna tveggja dyra ofursportbíl sem fær heitið Huayra BC Roadster.

Ítalski bílaframleiðandinn Pagani Automobili hefur tilkynnt að hann muni kynna tveggja dyra ofursportbíl sem fær heitið Huayra BC Roadster á bílasýningunni í Pebble Beach í Bandaríkjunum síðar í mánuðinum.

Einungis 40 eintök verða framleidd af bílnum sem mun kosta um 3,5 milljónir dollara sem samsvarar tæplega 430 milljónum íslenskra króna. Bíllinn er aðeins 1.250 kg að þyngd og er með sérlega léttu opnanlegu þaki. Bíllinn er með V12 vél með tvöfaldri forþjöppu sem er fengin úr AMG smiðju Mercedes-Benz. 791 hestafla vélin sér til þess að það er nógur kraftur undir húddinu. 

Hinn nýi Huayra mun leysa Pagani Zonda af hólmi sem hefur verið stolt ítalska bílaframleiðandans. Nú á hinn nýi Huayra að leysa það hlutverk af hólmi og það verður að segjast eins og er að hann er líklegur til að ná athygli þeirra sem eiga nóg af peningum og hafa áhuga á hraðskreiðum bílum. Það þykir líka sérlega áhugavert meðal fjársterkra bílaáhugamanna þegar bíll er aðeins framleiddur í 40 eintökum. 

Pagani Automobili var stofnað árið 1992 af Horacio Pagani í bænum San Cesario sul Panaro nálægt Modena. Fyrirtækið hefur staðið sig ágætlega allt síðan það hleypti fyrsta Pagani Zonda af stokkunum fyrir tveimur áratugum. Ferrari safnarinn þekkti Benny Caiola keypti einmitt fyrsta eintakið af Zonda sportbílnum fyrir 20 árum. Gert er ráð fyrir að hinn nýi Pagani Huayra muni fara í harða samkeppni við aðra ítalska ofursportbíla eins og Ferrari F12 Berlinetta og Lamborghini Aventador.