*

Hitt og þetta 27. október 2013

8 hlutir sem má dunda sér við í veikindum

Veikindin gera sjaldnast boð á undan sér. En það má gera ýmislegt skemmtilegt þó að lífið hangi á bláþræði sökum pestar.

Lára Björg Björnsdóttir

Ekki er gaman að hanga heima með ælu, kvef, hita eða beinverki. Til að stytta sér stundir má þó alltaf gera eitthvað upplífgandi til að komast í gegnum þetta.

Eins og til dæmis eftirfarandi:

1. Skoðaðu heilsuuppskriftir á netinu og gefðu þeim einkunn á skalanum einn til tíu hversu ógeðslegar og ógirnilegar þær eru. Þú getur safnað þeim saman í lítið skjal og sent vinum og ættingjum á email undir yfirskriftinni: „Ég er veik/veikur og hef séð ljósið.“ Þegar þér er batnað sendir þú sama fólki svo annan email þar sem stendur DJÓK í 48 punkta letri.

2. Taktu næsta dagblað og teiknaðu sólgleraugu og yfirvaraskegg á andlit í blaðinu. Þú skalt þar að auki teikna eyrnalokka á ljóðskáld og utanríkisráðherra og pípuhatta á karlrembur.

3. Farðu á Facebook og kommentaðu á allar myndir hjá vinum þínum um veikindi þín. Þetta á sérstaklega við um stór gleðiefni í lífi vina þinna svo sem fæðingarmyndir og brúðkaupsmyndir. Taktu fram hvað hrjáir þig, farðu út í öll smáatriði hvað einkenni þín varðar og hvernig þau hafa þróast í gegnum veikindaferlið. Batahorfur mega fylgja ef þú nennir.

4. Hringdu í öll veitingahús á landinu og pantaðu sæti á jólahlaðborðum. Láttu vertana lesa upp matseðlana og gerðu samanburð. Ekki hika við að spyrja viðeigandi spurninga. Hvar verða flestar kæfutegundirnar? Og hvað með svínakjötið? Hvar verður saltaðasta kjötið? Síðan er alltaf hægt að afpanta þegar nær dregur. Eða ekki.

5. Farðu út í glugga og bankaðu fast þegar fólk gengur framhjá. Kallaðu „hó!” og feldu þig síðan. Þú getur líka kastað eggjum í fólk en þá skaltu vera búin(n) að slökkva öll ljós.

6. Sestu niður og hugleiddu fortíðina vel og vandlega með blað og penna þér við hlið og hringdu svo rúnt í öll þau fyrirtæki sem hafa einhvern tímann gert eitthvað á þinn hlut. Hvort sem það var fífill í salatinu í fyrra hjá einhverju salatfyrirtækinu eða volgt kók í kælinum í síðasta mánuði í hverfisbúllunni. Ekkert er of ómerkilegt þegar gera þarf upp neytendamál.

7. Horfðu á allar konunglegar jarðarfarir og brúðkaup. Þetta er allt til á Youtube. Jarðarför Díönu er til dæmis fjórar klukkustundir. Dagurinn flýgur hjá með þessa stórviðburði mannkynssögunnar í tölvunni.

8. Snapchat kemur sterkt inn í veikindunum. Hér má gera ótalmargt skemmtilegt. Svo sem að sviðsetja eigin útfærslu á Svanavatninu eða dáleiða gæludýrin.

Stikkorð: Veikindi  • Örvænting