*

Hitt og þetta 30. apríl 2006

900 milljónir í ferðir

Á 68 ársþingi Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands var mikil umræða um ferðamál íþróttahreyfingarinnar. Þingið samþykkti ályktun þar sem framkvæmdastjórn ÍSÍ var falið að eiga viðræður við ríkisvaldið um stofnun sjóðs sem hafi það að markmiði að jafna ferðakostnað íþróttahreyfingarinnar. Urðu umræður all snarpar, en þó samhljóða um að slíkum sjóði yrði komið á. Kom m.a. fram að ferðakostnaður íþróttahreyfingarinnar hefði verið um það bil 900 milljónir króna á síðasta ári.

Þór Vilhjálmsson, formaður Íþróttabandalags Vestmannaeyja var meðal þeirra sem tóku til máls á þinginu um ferðakostnað íþróttahreyfingarinnar og í máli hans kom fram að ferðakostnaður ýmissa landsbyggðarfélaga væri verulega íþyngjandi og stæði í sumum tilfellum framgangi íþrótta fyrir þrifum, og svo væri m.a. um íþróttahreyfinguna í Eyjum sem greiddi nærri 40 milljónir króna í ferðakostnað. Þó væri reynt spara þann kostnað eins og mögulegt er og nefndi hann sem dæmi að meistaraflokkum félaganna í Eyjum væri á stundum boðið uppá að ferðast á nóttunni til að spara. Var sama hvort ræðumenn komu af landsbyggðinni eða Reykjavíkursvæðinu, þar á milli var enginn ágreiningur um þetta mál.

Undanfarin Íþróttaþing hafa tillögur og nefndir um ferðakostnað íþróttahreyfingarinnar komið upp en aldrei fengið hljómgrunn á Alþingi. Nú var hinsvegar svo að skilja á ýmsum Íþróttaþingsfulltrúum, að þverpólitískur meirihluti væri að myndast á Alþingi fyrir þessu mikla hagsmunamáli íþróttahreyfingarinnar.