*

Menning & listir 27. maí 2021

Íslandsmet í kostunum

Hvert augnablik var selt í nýjasta myndband Hipsumhaps sem slær líklega Íslandsmet í fjölda kostenda.

Snær Snæbjörnsson

Fannar Ingi Friðþjófsson, söngvari Hipsumhaps, telur að nýjasta lag hljómsveitarinnar sé „sponsaðasta" tónlistarmyndband Íslandssögunnar en hann segir að rúmlega tuttugu fyrirtæki hafi tekið þátt við gerð lagsins. 

„Í fyrra fengum við hugmynd að gera myndband við þetta lag sem væri bara ótrúlega sponsað af því að lagið fjallar um að meika það. Að meika það árið 2021 er bara að verða nógu stór prófill til að geta farið að selja auglýsingar eða verða áhrifavaldur. Mér fannst þetta bara ótrúlega fyndið," segir Fannar. „Þetta lag er það sem að ég held að fólk vilji heyra, bara eitthvað nógu auglýst og upbeat." 

Úr hugmynd í dauðans alvöru

Hann segir að myndbandið hafi færst úr því að verða hugmynd yfir í raunveruleika þegar að hann vissi ekki hvernig fjármagna ætti plötuna. „Síðan var ég bara kominn með bakið upp við vegg upp á það hvernig ég ætlaði að eiga efni á plötunni sem að kemur út á sunnudaginn. Þannig að þetta myndband fór úr því að vera hugmynd í dauðans alvöru upp á það að gera. Ég byrjaði í febrúar að hafa samband við fyrirtæki með þessa hugmynd í maganum og það voru síðan um tuttugu fyrirtæki sem að tóku þátt."

Undir myndbandinu á Youtube er að finna ítarlegan lista yfir þau fyrirtæki sem að kostuðu lagið með yfirskriftinni „sérstakar þakkir" og þá er einnig að finna annan lista með yfirskriftinni „ekkert sérstakar þakkir". Fannar segir að á þeim lista séu mögulega þau fyrirtæki sem voru ekki tilbúinn að kosta myndbandið og plötuna.

Ný plata væntanleg á sunnudaginn

Landsþekktir tónlistarmenn koma að gerð lagsins og myndbandsins. Brynjar Barkarson, einnig þekktur sem Lil Binni og annar meðlima tvíeykisins ClubDub, leikstýrir og leikur í myndbandinu. Auk þess syngur Brynjar bakraddir ásamt Jóni Jónssyni og GDRN. Ný plata hljómsveitarinnar kemur út á sunnudaginn og mun hún skarta tíu lögum sem eru hvert öðru ólíkara að sögn Fannars. Þá ætlar hljómsveitin á tónleikaferðalag í sumar og auk þess verða stórir útgáfutónleikar í nóvember. 

Hér að neðan má sjá myndbandið.