*

Heilsa 29. október 2016

Ábati af heilsurækt

Samanlagður hagnaður vinsælustu heilsuræktarstöðva höfuðborgarsvæðisins nam 256 milljónum árið 2015.

Snorri Páll Gunnarsson

Á haustin leggur landinn gjarnan leið sína í æfingar- og tækjasali líkamsræktarstöðva. Eftir að sumri lýkur færist líf flestra í fastari skorður. Skólar hefjast og innivera eykst í kjölfar kólnandi veðurs. Líkamsrækt getur því verið kjörin leið til að brjóta upp hversdagsleikann og koma blóðinu á hreyfingu.

Fjórar stærstu og vinsælustu líkamsræktarstöðvar Reykjavíkur og nágrennis eru World Class í eigu Lauga ehf., Sporthúsið í eigu Sporthallarinnar ehf., Hreyfing í eigu Hreyfingar ehf. og Reebok Fitness í eigu RFC ehf. Viðskiptablaðið kynnti sér fjármál og verðskrár þessarra félaga.

Skuldsetning skilar arðsemi

Heildareignir félaganna námu samtals 4,3 milljörðum króna í árslok 2015 samkvæmt ársreikningum og var eigið fé um 905,4 milljónir. Eiginfjárhlutfall félaganna er því um 21%. World Class er stærsta heilsuræktarkeðja landsins, með 12 heilsuræktarmiðstöðvar og 6 sundlaugar, en eignarhlutdeild hennar í heildareignum félaganna nemur um 82%. Samanlagður hagnaður nam 256 milljónum, en var 583 milljónir árið áður. Alls var fjárfest fyrir 67,9 milljónir árið 2015.

Nýting eigna til tekjusköpunar var mest hjá Sporthöllinni árið 2015 og veltuhraði eigna mestur hjá Laugum, en báðar kennitölur voru minnstar hjá Hreyfingu. Hluti hagnaðar af rekstrartekjum var mestur hjá RFC og minnstur hjá Laugum. Skammtímagreiðsluhæfi var minnst hjá Laugum en fjárhagsleg vogun mest. Arðsemi heildareigna fyrir öll fyrirtækin (13,8% að meðaltali) er þó umfram vexti á skuldum þeirra samkvæmt útreikningum Viðskiptablaðsins, sem þýðir að fyrirtækin vaxa hraðar en skuldirnar, og stuðlar skuldsetningin því að arðsemi félaganna.

Reebok Fitness ódýrasta stöðin

Þegar litið er til bæði mánaðargreiðslna í áskrift og eingreiðsluverðs í ársáskrift í úrtaki fimm líkamsræktarstöðva á höfuðborgarsvæðinu (allar fyrrgreindu auk Hress í Hafnarfirði) er Reebok Fitness ódýrasta líkamsræktarstöðin og Hreyfing sú dýrasta. Mánaðargjöldin eru ámóta hjá öllum stöðvunum nema Hreyfingu - á bilinu 6.540-6.990 kr. - en þar nemur gjaldið 7.990 kr. og er verðmunurinn allt að 22,2%. Munurinn í mánaðargjaldi stærsta aðilans, World Class, og þess minnsta, Reebok, nemur aðeins 300 kr.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að ýta á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Heilsa  • Líkamsrækt  • Ræktin