*

Bílar 19. desember 2019

Actros valinn Vörubíll ársins

Mercedes-Benz vinnur verðlaun fyrir vörubíl ársins 2020, í þetta er í fimmta sinn sem Actros trukkurinn vinnur verðlaunin.

Mercedes-Benz Actros vann til hinna eftirsóttu verðlauna Truck of the Year 2020 eða Vörubíll árisns en valið var ákveðið af dómnefnd sem samanstóð af atvinnubílablaðamönnum frá 24 löndum.

Þetta er í fimmta sinn sem Actros hlýtur viðurkenninguna Truck of the year. Actros hefur átt mikilli sigurgöngu að fagna síðan hann kom fyrst á markað árið 1997. Mercedes-Benz er sigursælasta merkið í sögu Truck of the Year en þýski bílaframleiðandinn hefur sigrað samtals níu sinnum í keppninni.

Nýr Actros er sérlega tæknivæddur atvinnubíll. Hann er m.a. með myndavélar í stað hliðarspegla sem staðalbúnað. Myndavélarnar auka verulega á útsýni fyrir ökumann, en kerfið samanstendur af tveimur myndavélum sitt hvoru meginn á bílnum. Í innanrými bílsins eru tveir 15 tommu skjáir sem festast á gluggapóst hvoru megin.

Þá er Actros með mikið af nýjum akstursstoðkerfum sem auka þægindi fyrir bílstjóra, öryggi hans sem og vegfaranda auk þess sem rekstrarhagkvæmni eykst mikið.

Athyglisverðasta nýjungin er Active Drive Assist akstursaðstoðarkerfið sem gerir bílinn að hluta til sjálfkeyrandi. Þetta er í fyrsta skipti sem slíkt er í boði í fjöldaframleiddum vörubíl. Þetta nýja akstursaðstoðarkerfi sér til þess að Actros geti hemlað, aukið hraðann og stýrt sjálfstætt.

Ólíkt kerfum sem vinna aðeins á ákveðnum hraða býður Active Drive Assist uppá að hluta til sjálfvirkan akstur á öllum hraða og notast bæði við radar og myndavélar til að gera aksturinn sem öruggastan. Innanrýmið í nýjum Actros er mjög vel hannað og býður upp á aukin þægindi fyrir bílstjóra.

Stikkorð: Mercedes-Benz  • Actros