*

Sport & peningar 10. júní 2019

Aðildin fljót að borga sig

Frá 20% upp í 108% verðmunur er á gjaldskrá golfklúbbanna á höfuðborgarsvæðinu.

Ingvar Haraldsson

Fimmtungi munar á hæsta og lægsta fulla árgjaldi fullorðinna í golfklúbbunum sex á höfuðborgarsvæðinu. Full aðild í Golfklúbbi Brautarholts kostar 135 þúsund á ári, 123 þúsund hjá Golfklúbbnum Oddi, 113 þúsund í GKG, Keili og Oddi, en 108 þúsund hjá Golfklúbbi Reykjavíkur. Aðildin miðast við þá sem eru 26 eða 27 ára og eldri, misjafnt eftir golfklúbbum og fram að eftirlaunaaldri.

Árgjaldið borgi sig eftir níu hringi

Fyrir þá sem stunda golf af kappi er fljótt að borga sig að skrá sig í golfklúbb. Aðild að golfklúbbi á höfuðborgarsvæðinu borgar sig eftir níu til fjórtán golfhringi miðað við fullt vallargjald þeirra sem standa utan við golfklúbba.

Verðmunurinn á milli GR og Golfklúbbi Brautarholts snýst við þegar horft á á vallargjöld fyrir þá sem eru í golfklúbbi innan Golfsambands Íslands (GSÍ). Ódýrast er að leika 18 holur í Brautarholti fyrir þá sem eru að leika utan síns heimavallar og eru í GSÍ en dýrast hjá GR. Í Brautarholti kostar 5.500 krónur að leika 18 holur en 10.815 krónur á golfvöllum GR á Korpúlfsstöðum og í Grafarholti fyrir þá sem eru í golfklúbbi innan GSÍ. Hjá öðrum golfklúbbum á höfuðborgarsvæðinu kostar hringurinn fyrir þá sem eru innan GSÍ á milli 6.900 og 8.900 krónur.

Gestir borga minna

Hafa þarf í huga að Brautarholt er 12 holu völlur en aðalvellir annarra golfklúbba á höfuðborgarsvæðinu eru 18 holur. Golfklúbbar bjóða einnig upp á vinavelli þar sem kylfingum býðst að leika hring gegn lægra gjaldi en öðrum vilji kylfingar breyta til. Því til viðbótar bjóða golfklúbbarnir oftar en ekki upp á afslátt á ýmsum golftengdum varningi.

Þá bjóða golfklúbbarnir flestir upp á afslátt af vallargjaldi sé leikið utan háannatíma, virka daga frá morgni til eitt eða tvö á daginn og í sumum tilfellum eftir klukkan tvö um helgar. Golfklúbbarnir bjóða margir klúbbfélögum að taka með sér gesti á ódýrari kjörum en ella utan háannatíma. Oddur býður til að mynda helmingsafslátt af flatargjaldi fyrir gesti klúbbfélaga.

Skert aðild

Fyrir þá sem ekki hafa kost á að leika oft yfir sumarið getur verið hagstæðara að kaupa skerta aðild að golfklúbbunum. Brautarholt býður til að mynda rauða aðild, sem kostar 29 þúsund krónur. Fyrir hana fást fimm hringir á Brautarholti og 2.500 krónur fyrir hvern hring eftir það. GKG býður einnig upp á 5 skipta klippikort í Leirdal og Mýrinni. Annar möguleiki er að ganga í golfklúbba í nágrenni við höfuðborgarsvæðið þar sem er í mörgum tilfellum ódýrara að leika og umferðin um vellina rólegri, þó hafa þurfi í huga aukinn ferðakostnað. Þá getur einnig verið hagstæðara að leika á 9 holu völlum á höfuðborgarsvæðinu þar sem vallargjöld eru lægri.

Yngri og eldri borga minna

Klúbbarnir bjóða alla jafna iðkendum á milli 18 og 25 eða 26 ára upp á félagsaðild á hálfvirði. Fyrir þá sem eru yngri en 18 ára kostar aðildin yfirleitt um fjórðung af verðskrá fullorðinna. Oftar en ekki er boðið upp á systkinaafslátt séu iðkendur 17 ára og yngri. Þá býðst eldri kynslóðinni einnig afsláttur á árgjaldi í golfklúbba, og sumir golfklúbbar veita þeim eldri viðbótarafslátt hafi þeir verið tíu ár eða lengur í sama golfklúbbi.

Nánar er fjallað um málið í Golf, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.