*

Tíska og hönnun 26. desember 2019

Aðrir hnappar að hneppa

Ermahnappar eru einn fárra hluta sem karlmenn geta notað til að setja sitt persónulega mark á jakkaföt.

Andrés Magnússon

Karlmannatíska er afar íhaldssöm, eins og sést á því að jakkaföt hafa verið svo að segja óbreytt meira en öld. Þau bera með sér alvarleika, fágun og sjálfsöryggi, en eru flest dökk og litlaus. Það er því vandi að setja sitt persónulega mark á klæðaburðinn, sér í lagi ef menn eru bindislausir. Karlar bera tæplega meira en tvo hringa og á öld snjallsímans er æ fátíðara að menn gangi með úr, svo þá er eiginlega aðeins tvennt eftir: Vasaklútar og ermahnappar.

Ermahnappar eru lágstemmdir í eðli sínu, en þeir sjást um leið og menn nota hendurnar. Það er auðvelt að finna góða ermahnappa og þeir þurfa ekki að vera dýrir. Galdurinn er að finna þá sem hæfa tilteknum fötum, öðrum aukahlutum (bindi, beltissylgju, úrkeðju), en þó fyrst og síðast eigandanum. Að þeir séu persónulegir, jafnvel óvenjulegir.

Yfirleitt notast menn við lágstemmda hnappa í vinnunni, en þeir geta líka vel verið persónulegir. Þeir þurfa ekki að vera dýrir, eins og blaðamannshnapparnir sem höfundi áskotnuðust, með upphafsstöfum hans í gömlum ritvélahnöppum. Sambærilegir hnappar fyrir fólk í fjármálalífi geta verið úr gömlum peningum, þar sem ártölin geta haft skírskotun í ævi og feril eigandans.

Að lokum má finna erfðagripi og antíkhnappa, sem geta jafnvel verið ágætis fjárfesting. Og ef menn eru á þeim buxunum má auðvitað fjárfesta í ákaflega dýrum hnöppum í betri skartgripabúðum.

Tilvaldir ermahnappar fyrir vélaverkfræðinginn. Eða tækniáhugamanninn. Nú eða fólk sem óhrætt við að sýna að það sé með sterkan stíl og versli í Prada.

 

Það má fá ýmsa hnappa með flúri eða táknum frá víkingaöld, en ætli galdrastafir eins og þessi Ægishjálmur frá Tateossian hæfi Íslendingum ekki betur.

 

Hér eru ermahnappar frá Cordings, tilvaldir fyrir skotveiðimanninn; bæði skrautlegir og skemmtilegir. Patrónan vitaskuld gullslegin.

 

Nánar má lesa um málið í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem kemur út 30. desember.