*

Bílar 23. maí 2021

Með Walter Röhrl á Porsche 911

Valli Sport, forstjóri Pipar\TBWA í Osló, langar að breyta Toyota Land cruiser í camper og segir að Siggi Hlö sé versti bílstjórinn.

Róbert Róbertsson

Valgeir Magnússon, oft kallaður Valli Sport, keppti í akstursíþróttum á árum áður og náði langt í vélsleðaakstri en keppti einnig í sandspyrnu og rallakstri. Valli er í dag oftast kenndur við auglýsingastofuna Pipar\TBWA þar sem hann var lengst af framkvæmdastjóri og er nú stjórnarformaður. Hann er nú forstjóri Pipar\TBWA í Osló ásamt því að stýra alþjóðlega áhrifavaldafyrirtækinu Ghostlamp. 

Hver er uppáhaldsbíllinn sem þú hefur ekið?

Ég átti 1963 módel af Volvo P1800 sem var algjört æði. Hann varð ég svo að selja þegar við vorum að byggja fyrir tæpum 30 árum og sé ég enn eftir þessum bíl.

Hver er eftirminnilegasta bílferðin?

Þegar ég var með fullan bíl af blaðamönnum og ljósmyndurum og við þurftum að ná flugi í Lúxemborg en lögðum af stað frá Cannes í suður Frakklandi eftir kvikmyndahátíð. Þá kikkaði inn gamli akstursíþróttamaðurinn enda lögðum við allt of seint af stað. Meðalhraði þurfti að vera um 160 km á klukkustund með stoppum inniföldum til að ná fluginu svo ég þurfti að liggja yfirleitt í kringum 200. Þetta var um 950 km leið á máttlausum Opel dísel sem var svo lengi upp að ég varð að halda hraða í öllum beygjum á leiðinni því annars var ekki hægt að ná bílnum nógu fljótt aftur upp á hraða. Nokkrir í þessum hópi tala enn um þessa bílferð.

Hver er besti bílstjóri sem þú þekkir (fyrir utan sjálfa þig)? 

Ég tók eitt sinn rallíleið með Walter Röhrl á Porche 911 Carrera 4 sem aðstoðarökumaður. Það var mögnuð reynsla en Walter er tvöfaldur heimsmeistari í rallí.

En versti bílstjórinn?

Siggi Hlö.

Hvað hlustarðu helst á í bílnum?

60´s og 70´s rokk finnst mér virka best þegar ég er að keyra. Fleetwood Mac kemur mér alltaf í akstursgírinn.

Hvort myndirðu vilja keppa í kappakstri eða torfæru?

Kappakstri.

Hver er draumabíllinn?

Mig langar að taka Toyota Land Cruiser og breyta honum í camper. Á einn gamlan svoleiðis með geggjaðri 6cl vél sem ég er að velta fyrir mér að breyta í hálendis-camper

Fjallað er um málið í fylgiblaði Viðskiptablaðsins um bíla. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér