*

Ferðalög 14. maí 2017

Áður mikil byggð en nú auðn

Ferðafélag Ísfirðinga bauð í fyrstu göngu vorsins í sex tíma göngu út á nesið Folafót, undir fjallinu Hesti, sem líklega er fyrirmynd að heimaslóðum Ólafs Ljósvíkings.

Höskuldur Marselíusarson

Fjallið Hestur stendur á nesi milli Hestfjarðar og Seyðisfjarðar við Ísafjarðardjúp. Nesið heitir Folafótur, og er talið að staðurinn sé fyrirmynd að Fótafæti, uppvaxtarstað Ólafs Ljósvíkingsins í skáldverki Halldórs Laxness, Heimsljósi. Á nesinu var töluverð byggð allt fram á fyrri hluta síðustu aldar, þarna voru 13 bæir og töluvert af þurrabúðum, og þegar mest var var 101 íbúi skráður þar árið 1910. Fór íbúum síðan fækkandi í kjölfar þess að vélbátar komu til sögunnar.

Sá sem nam land í Skötufirði og Hestfirði var Vébjörn Sygnakappi, og bjó hann líklega á Folafæti. Gerðist það vorið eftir að hann og systir hans brutu skip sitt en komust við illan leik í land þar sem Atli þræll Geirmundar Heljarskinns tók á móti þeim.

Á það er minnst í Landnámu að Atli hafi fengið frelsi sitt og bæinn Atlastaði að launum þegar hann svaraði spurningu Geirmundar um hvers vegna hann hefði orðið svo djarfur að taka að sér skipsbrotsmenn án þess að spyrja sig leyfis og ekki einu sinni þiggja laun fyrir þeim orðum að það yrði uppi meðan Ísland væri byggt hve mikils háttar sá maður væri þegar einn þræll þyrði að gera slíkt án hans leyfis.

Gengið á Folafót

Ferðafélag Ísafjarðar bauð um miðjan apríl upp á gönguferð út nesið sem farin var undir fararstjórn Barða Ingibjartssonar, sem ólst þar upp og á sumarhús þar sem bærinn Hestur stóð áður, nokkuð áleiðis út með hlíðinni Hestfjarðarmegin. Þaðan hófst 16 kílómetra löng gangan, sem tók um 30 manna hópinn um 6 tíma, en í hópnum voru meðal annars blaðamaður og faðir hans.

Gengið var af stað í glaða sólskini út eftir firðinum, í fyrstu eftir ströndinni þar sem gengnar voru eyrarnar Kvassaeyri, Miðeyri og Litlueyri og loks út á Kolbeinseyri. Víða á þessu svæði, þar á meðal Litla-Bæ á Hvítanesi í næsta firði, Skötufirði, þar sem langafi blaðamanns ólst upp meðal 11 systkina, sem og á Kolbeinseyri, var búið í tvíbýli um tíma að mati Barða, enda búið alls staðar þar sem hægt var að stunda sjósókn þó að forminu til voru þetta bóndabæir.

Fjöldi furðulegra kennileita

Þegar þarna var komið við sögu lagði hópurinn upp brekkuna upp á svokallaða Háubakka og síðan var gengið út með þeim þar til komið var að klofnum steini uppi á bakkanum sem kallaður er Hvíldarsteinn, en þar var horft niður á lendingarstaðinn við Prestasteininn, en bæði kennileitin draga nafn sitt af leið prestsins á svæðinu til að vitja íbúa Folafótar. Síðan var gengið áfram yfir hálsinn, þar sem fjallið Hestur blasti við göngumönnum frá öðru sjónarhorni en ferðamenn um Djúpveginn eru vanir að sjá það. Við himinn blasti einkennilegan klettadrang sem skagar eins og fingur upp úr fjallsegginni, og leiðsögumaðurinn kallaði Kerlinguna.

Uppi á hálsinum bar að líta tvær vörður sem þar standa hlið við hlið og eru kallaðar Smérvörðurnar, en ekki er vitað um tilgang þeirra, né hvaðan nafngiftin kemur. Loks þegar komið var yfir hálsinn var gengið niður svokallaða Álfalág, sem er lítið gil sem gengur niður úr fjallinu og sagði Barði hópnum frá því að þarna hefðu tveir bændur staðið í veiðideilum um lækinn í gilinu en öðrum bóndanum þótti hinn fullstórtækur við veiðar úr honum og lagði þá á þau álög að lækurinn myndi hverfa af yfirborðinu, og sjást nú einungis ummerki um læk þar á köflum á yfirborðinu.

Neðan undir gilinu eru svo rústir Heimabæjar, sem var höfuðbólið á Folafæti, rétt fyrir ofan það sem heitir Sprengisflöt upp af klettadröngum sem kallaðir eru Sprengir og liggja í fjörunni. Áði hópurinn þar við og borðaði nesti sitt, meðan leiðsögumaðurinn sagði hópnum sögu af grimmilegri hefnd álfakonu á dreng sem þar bjó en hafði virt að vettugi fyrirmæli um að kasta ekki grjóti í stein við bæinn, sem endaði með því að drengurinn lést eftir skyndileg veikindi.

Á slóðum forfeðra

Við Heimbæ stóð timburhús fram til ársins 1990, er það fauk, en í víkinni voru auk hans einnig bæirnir Salahús, Kolakot (Folakot) og Fótatraðir þar sem var þríbýli, en enn sést veglegur hlaðinn garður kringum þann bæ. Við Heimabæ voru tvenns konar fjárhús, annars vegar aðalfjárhúsin nær bænum, en síðan nokkurn spöl frá voru önnur fjárhús sem báru nafnið Leighús og Leighúsflöt, en þar var haldið það fé sem síðan var greitt í leigu ár hvert til landeigandans, sem ekki virðist hafa verið algengt.

Þann 4. desember árið 1920 drukknaði Guðfinnur Einarsson, langalangafi blaðamanns, þar rétt undan ströndinni á litlum árabát í augsýn ábúanda, Sigurgeirs Sigurðssonar tengdasonar síns, sem ekkert gat að gert, en þess má geta að hann var afi Pálma Gestssonar leikara.

Síðan var gengið út nesið að Systratanga og Skollaborg, en þar í fjörunni hefur sjórinn skapað magnaðar náttúrumyndir úr fjöruklettunum. Gleymdu sér ýmsir í gönguhópnum við að taka myndir af þeim ótrúlegu mynstrum sem mynntu helst á listagallerí með nútímalist.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.