*

Ferðalög & útivist 24. mars 2013

Æðisköstum í háloftum fjölgar

Tilvikum þar sem farþegar sturlast um borð í flugvélum fer fjölgandi samkvæmt tölum frá IATA (International Air Transport Association).

Tilvikum vegna atvika um borð í flugvélum þar sem farþegar ganga berserksgang fjölgaði um 29% frá árunum 2009 til 2010. Þetta kemur fram í grein á cnn.com.

Í greininni eru talin upp nýleg flugatvik, þar á meðal atvikið þegar íslenskur karlmaður var límdur við sæti sitt um borð í Icelandair vél á leið frá Keflavík til New York. Hann hafði áður hrækt, gólað og ógnað öðrum farþegum um borð. 

Í greininni er einnig talað um að oft þurfi lítið til að fólk brjálist þegar það er þreytt, búið að bíða lengi á flugvöllum og þarf að sitja þétt saman í langan tíma.

Þá er minnst á konu um borð í Jetblue flugi frá New York til San Diego. Hún hafði borgað 65 dali aukalega fyrir meira fótapláss. Karlmaður aftar í vélinni var síðan fluttur í sams konar sæti (meira fótapláss sæti) því sjónvarpið hans bilaði. Konan var ósátt við það og reiddist svo illilega að vélin varð að millilenda í Denver þar sem konunni var vísað frá borði.

Oft þarf flugvélin ekki einu sinni að vera komin í loftið til að fólk reiðist heiftarlega á ferðalögum. Gott dæmi um slíkt er Yan Linkun, háttsettur stjórnmálamaður í Kína, sem missti tökin þegar kom í ljós að hann hafði misst af tveimur flugum. Eins og sjá má á myndbandi lét hann reiði sína bitna á tölvum og gluggum við innritunarborðið á flugvellinum.

Reiði um borð í flugvélum er kannski örlítið skiljanleg þó andlegt eða líkamlegt (eða hvorttveggja) ofbeldi sé að sjálfsögðu aldrei svarið. Áður en farþegar komast um borð í flugvélar eru þeir oft búnir að bíða í löngum röðum við öryggis- og tollaeftirlit. Og ekki hjálpar niðurskurður þegar kemur að starfsmannahaldi á flugvöllum sem lengir raðir og gerir allt miklu erfiðara.

Og það er ekki bara niðurskurður á flugvöllum heldur eru flugfélög alltaf að leita ráða til að spara. Til dæmis með því að minnka plássið fyrir farþega og rukka aukalega fyrir hvers kyns þjónustu um borð.

Þó allt hér að ofan sé óvandað og eflaust þreytandi þá útskýrir það kannski ekki hvers vegna brjálæðisköstum um borð fer fjölgandi. Dr. Drew Pinsky bendir á að flugfarþegar geti upplifað örlitla heilabólgu og það getur haft áhrif á skap. En aðal ástæðan er þó gamla góða áfengið að sögn Dr. Drew Pinsky. 

Stikkorð: Flug  • Flugvellir  • Ferðalög  • Flugdólgar