*

Tölvur & tækni 22. september 2014

Ætla að smíða geimlyftu

Japanska fyrirtækið Obayashi ætlar að smíða lyftu sem fer 96 þúsund kílómetra upp í geim.

Japanska fyrirtækið Obayashi hefur tilkynnt að það ætli sér að byggja lyftu sem fer 96 þúsund kílómetra upp í geim. ABC fréttaveitan greinir frá þessu.

Fyrirtækið ætlar sér að ljúka við lyftusmíðin fyrir árið 2050. Yoji Ishikawa, rannsóknar- og þróunarstjóri fyrirtækisins, segir að núverandi tækni bjóði upp á þennan möguleika, en telur þó að ekkert fyrirtæki getið staðið eitt að verkefninu. „Til þess að klára verkefnið þarf alþjóðlegt samstarf,“ segir Ishikawa.

Verði lyftan að veruleika gæti það markað endalok geimflauga, en smíði þeirra kostar fúlgur fjár og ferðir með þeim jafnframt hættulegar. Lyftuna yrði hægt að nota til flutninga á vörum og fólki og myndi ferðin upp taka um eina viku.

Stikkorð: Obayashi